Fróðleikur um aðkomu Rauða krossins að rekstri sóttvarnarhúsa

2. apríl 2021

Rauði krossinn á Íslandi er mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins og sinnir ýmis konar neyðaraðstoð og stoðþjónustu. Nánar er kveðið á um þetta í lögum og stefnu félagsins auk laga nr. 115/2014.

  • Þriðja grein laga Rauða kross Íslands:"Rauði krossinn á Íslandi sinnir neyðaraðstoð jafnt innan lands sem utan og er hluti af almannavörnum Íslands."
  • Markmið 1 í stefnu Rauða krossins til 2030: "Við leggjum okkur fram um að koma í veg fyrir alvarlega atburði og draga úr áhrifum þeirra sem verða."
  • Úr fyrstu grein laga nr. 115/2014: "Félagið gegnir stoðþjónustu gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum." 

Um sóttkví

Síðastliðna 15 mánuði hefur heimurinn staðið frammi einhverri alvarlegustu ógn mannkyns í seinni tíma. Kórónuveiran stökkbreytist linnulítið, bólusetning gengur víða hægar en vonir stóðu til og í fjölmörgum ríkjum sækir farsóttin í sig veðrið.

Sóttkví er ein viðurkenndasta og árangursríkasta aðferð sem fyrirfinnst til að draga úr útbreiðslu Covid-19. Rauði krossinn á alþjóðavísu styður slíkar aðgerðir svo komast megi hjá óheftri útbreiðslu veirunnar. Um allan heim aðstoðar Rauði krossinn fólk sem er í sóttkví auk þess að sinna stoðþjónustu við stjórnvöld svo beita megi þessu árangursríka verkfæri. Sóttkví er vissulega tímabundin skerðing á ferðafrelsi fólks meðan mikil hætta er á því að viðkomandi geti stuðlað að útbreiðslu smits. Sóttkví er því aldrei beitt lengur en nauðsyn krefur.

Á Íslandi hefur tekist að koma í veg fyrir alvarlega atburði og draga úr áhrifum faraldursins með styrkri stjórnun og nánu samstarfi embættis landlæknis, sóttvarnalæknis og annars fagfólks á sviði farsótta, almannavarna og ríkisstjórnar. Enginn vafi leikur á að þetta öfluga samstarf hafi komið í veg fyrir fjöldamörg smit, auk þess að vernda heilbrigðisþjónustu landsins. Ef heilbrigðisþjónustan næði ekki að sinna nauðsynlegri þjónustu vegna ofálags myndi ófullnægjandi aðgengi reynast sérlega þungbært fyrir ýmsa hópa, þar á meðal fólk sem býr við langvinna og alvarlega sjúkdóma.

Af hverju starfar Rauði krossinn í sóttvarnahúsi?

Eins og áður hefur komið fram styður Rauði krossinn um allan heim beitingu sóttkvíar sem árangursríkrar leiðar til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19. Rauði krossinn mun ekki sinna löggæslu eða hindra för fólks, enda hefur félagið hvorki lagastoð né áhuga til að standa í slíku. Markmið félagsins er að gera gestum hússins dvölina eins bærilega og hægt er og bregðast við brýnum þörfum þeirra um leið og gætt er að ströngustu kröfum um sóttvarnir.

Hvað gerist ef einstaklingur neitar að dvelja í farsóttarhúsi eða yfirgefur það án heimildar?

Í reglugerð nr. 255/2021 er kveðið á um það hverjir skuli dvelja í sóttkví í sóttvarnarhúsi og hvaða reglur gilda meðan á þeirri sóttkví stendur. Í reglugerðinni segir meðal annars:

Ferðamaður sem kemur frá eða hefur dvalið í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (dökkrauð eða grá svæði samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu) skal dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

a. Ferðamaður skal ekki fara út úr húsnæði sóttvarnahúss nema brýna nauðsyn ber til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

b. Ferðamaður má ekki taka á móti gestum í sóttvarnahúsi.

c. Ferðamaður má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum sóttvarnahúss, svo sem stigagöngum eða sameiginlegum útisvæðum.


Af þessu má sjá að reglugerðin kveður meðal annars á um að gestum í sóttvarnarhúsi sé óheimilt að yfirgefa húsnæðið. Starfsfólk í farsóttar- og sóttvarnarhúsum mun því eindregið ráða gestum frá því að yfirgefa húsið án heimildar, enda væri slíkt brot á sóttvarnarlögum og áðurnefndri reglugerð. Starfsfólk Rauða krossins mun þó, eins og áður segir, undir engum kringumstæðum hindra för fólks en ber að tilkynna lögreglu um möguleg sóttvarnarbrot. Slík brot varða sektum eða fangelsi skv. 19. grein sóttvarnalaga nr. 19/1997 eða 175. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940.