Gefðu þínum görmum glæsta framtíð

4. júní 2018

Nú er hafið árlegt fatasöfnunarátak Rauða krossins í samstarfi við Eimskip, Sorpu og Póstinn. Þessa dagana eru fatasöfnunarpokar að berast inn á öll heimili í landinu.

Allur textíll í  pokana

Rauði krossinn hvetur landsmenn til þess að taka til í skápum og losa sig við gömul föt, skó, handklæði, rúmföt og jafnvel staka eða götótta sokka því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru hvort sem hún er slitin eða heil. Það má setja allan textíl í pokana, líka götótt viskastykki og slitin rúmföt því það sem ekki er hægt að endurnýta fer í endurvinnslu.

Hvar er hægt að skila pokunum?

Hægt er að koma með fatasöfnunarpoka á söfnunarstöðvar víðs vegar um landið s.s. afgreiðslustöðvar Eimskips Flytjanda, endurvinnslustöðvar Sorpu, í söfnunargáma Rauða krossins á grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og fl. stöðum viðsvegar um landið.  Hér má nálgast lista yfir söfnunargáma Rauða krossins.  Einnig taka deildir Rauða krossins við pokunum um allt land. Sjá kort yfir deildir Rauða krossins á Íslandi

Fylgdu fötunum eftir

Fatasöfnun er afar mikilvæg fjáröflun fyrir Rauða krossinn og gerir samtökunum kleift að sinna hjálpar- og mannúðarstarfi bæði hér heima og erlendis. Það má líka fylgja fötunum eftir og styrkja mannúðar og hjálparstarf Rauða krossins með því að senda SMS-ið TAKK í síma 1900 og styrkja starfið með 1900 kr. framlagi.  Fylgdu fötunum eftir og sendu SMS til styrktar Rauða krossins.