• Fostbraedur

Gjafmildur karlakór Fóstbræðra

Gáfu fatnað til hælisleitenda

8. nóvember 2016

Karlakórinn Fóstbræður fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir. Kórfélagar sýndu í vikunni að það er sælla að gefa en þiggja. Þeir söfnuðu saman vel völdum flíkum, jakkafötum og glæsilegum yfirhöfnum, fyrir hælisleitendur sem urðu fyrir miklu áfalli í síðasta mánuði.

Fyrir nokkrum vikum myndaðist neyðarástand meðal hælisleitenda á Íslandi þar sem veggjalús kom upp, á sama tíma í nokkrum búsetuúrræðum. Þetta þýddi að farga þurfti öllum fatnaði sem kynni að vera smitaður, sem og sængurfötum og öðrum vefnaðarvörum. 

Fólkið sem varð fyrir þess óláni þurfti að reiða sig á Fataflokkun Rauða krossins um nýjan fatnað. Brugðist var við með hraði og ástandinu bjargað um sinn. En flestir hælisleitendur á Íslandi eru fullorðnir karlar og oft vill reynast erfitt að finna falleg karlmannsföt í fataflokkun Rauða krossins. 

Fóstbræður réttu fram hjálparhönd og voru fúsir til að láta af hendi glæsilegan karlmannsfatnað, hrein og falleg föt, vel valin og vel með farin. 

Á myndinni má sjá Einar Mäntyla, kórfélaga, afhenda Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins, fyrsta fatapokann af fjölmörgum. Arinbjörn Vilhjálmsson, formaður Fóstbræðra fylgist með. 

Rauði krossinn þakkar Fóstbræðrum kærlega fyrir þetta mikilvæga framlag. Svona á að fagna afmæli! Um leið er rétt að minna á að góður klæðnaður kemur ávallt að góðum notum. Og síðast en ekki síst er rétt að minna á afmælistónleika Karlakórsins Fóstbræðra! Þeir fara fram í Hörpu þann 18. nóvember næstkomandi. Hér er hægt að nálgast miða.