• Nagasaki2

Heimur án kjarnavopna er eini heimurinn sem kemur til greina

9. ágúst 2016

 

Í dag, þann 9. ágúst, minnumst við fórnarlamba grimmilegustu hernaðarárása mannkynssögunnar þegar tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Það sem meira er, fórnarlömbin verða sífellt fleiri. Enn þann dag í dag eru spítalar japanska Rauða krossins í Hiroshima og Nagasaki fullir af sjúklingum sem glíma við eftirköst árásarinnar.

Alþjóðahreyfing Rauða krossins hefur lagt ríka áherslu á takmörkun og afvopnun kjarnorkuvopna. Frá árinu 2011 hefur verið opinber stefna hreyfingarinnar að kjarnorkuvopn eru með öllu óásættanleg enda brýtur notkun þeirra í bága við grundvallarreglur mannúðarréttarins og Genfarsamninganna. Með notkun kjarnorkuvopna er ómögulegt að gera greinarmun á þátttakendum í vopnuðum átökum og almennum borgurum. Í kjölfar kjarnorkuárásar er ekki heldur hægt að tryggja, með nokkru móti, öryggi hjálparstarfsfólks sem þarf að leggja líf sitt að veði til að koma fórnarlömbum til aðstoðar. Þetta hefur sýnt sig glögglega í Hiroshima og Nagasaki, ekki aðeins fyrir fólk sem veitti aðstoð strax í kjölfar árásarinnar, heldur einnig árum og áratugum síðar.

Hættan hefur heldur aldrei verið meiri. Samtökin Global Zero, sem berjast fyrir afvopnun kjarnavopna, hafa tekið saman fjölda skipta þar sem notkun kjarnavopna var raunveruleg ógn, og það aðeins síðan í febrúar 2014. William Perry, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, telur að hættan á notkun kjarnavopna sé jafnvel meiri nú heldur en í Kalda stríðinu.

Og jafnvel þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir opinberar yfirlýsingar um að draga úr fjölda kjarnavopna meðal allra aðildarríkja að Samningi um bann við útbreiðslu kjarnavopna er lítið um efndir. Þrátt fyrir að þekking okkar um eyðingarmátt kjarnavopna, á líf og samfélög, á matvælaframleiðslu, hækkandi hitastig jarðar, alþjóðleg efnahagskerfi og heilbrigði á heimsvísu er lítið um efndir.

Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld leggi sín lóð á vogarskálarnar við afvopnun kjarnavopna. Aðgerðaráætlun aðildarríkja að Samningi um banni við útbreiðslu kjarnavopna liggur fyrir. Hún hefur legið fyrir síðan árið 2010. Er ekki tími til kominn að standa við stóru orðin? Sem herlaus þjóð getur Ísland lagt sitt af mörkum og látið í sér heyra.

Heimur án kjarnavopna er eini heimurinn sem kemur til greina.