• _28A3237

Hlaupum fyrir Frú Ragnheiði og skaðaminnkun!

27. júní 2016

Nú styttist óðum í Reykjavíkurmaraþonið og í ár hlaupum við fyrir Frú Ragnheiði og jaðarsetta hópa í samfélaginu okkar. Við hlaupum fyrir Frú Ragnheiði bæði til þess að vekja athygli á skaðaminnkun og til þess að styrkja og efla starfið.

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður gamall sjúkrabíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin, alla virka daga. Markmiðið er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, eins og heimilislausra einstaklinga eða fólks með fíknivanda. Eitt meginmarkmið verkefnisins er að draga úr sýkingum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda einstaklingum aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og öðrum sprautubúnaði og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Þannig er hægt með einföldum og ódýrum hætti að draga verulega úr líkum á því að einstaklingur þurfi í framtíðinni á kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu að halda, sem og auka lífsgæði hans miðað við aðstæður. 

Verkefnið byggir á sjálfboðnu starfi fjölbreytts hóps einstaklinga sem standa að meðaltali tvær vaktir í mánuði. Í hópi sjálfboðaliðanna eru einna helst hjúkrunarfræðingar en einnig eru í hópnum læknar, félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðinemar og aðrir reynslumikli einstaklingar. Eins og í öllu starfi Rauða krossins byggja sjálfboðaliðar í Frú Ragnheiði störf sín á mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi og mæta gestum Frú Ragnheiðar af fordómaleysi og virðingu.

ÞÚ getur lagt okkur lið með því að hlaupa með fyrir Rauða krossinn eða heita á hlauparana okkar. HÉR getur þú fylgst með okkur og heitið á hlauparana og HÉR getur þú skráð þig í hlaupið og byrjað að safna áheitum fyrir Frú Ragnheiður!

 

Hlaupum saman fyrir skaðaminnkun!