• 2016_thorir_johanna_Midjardarhaf--2-

Jóhanna og Þórir í björgunaraðgerðir í Miðjarðarhafi

Sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi taka þátt

8. nóvember 2016

Tveir sendifulltrúar á vegum Rauða krossins á Íslandi koma til með að taka þátt í björgunarverkefnum Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) í Miðjarðarhafi á næstu vikum. Þetta eru þau Jóhanna Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, annars vegar, og Þórir Guðmundsson, deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík, hins vegar. Þórir fer með upplýsingamál fyrir hönd Alþjóðasambandsins í þessum björgunaraðgerðum.

Björgunaraðgerðir Rauða krossins í Miðjarðarhafi hafa skilað miklum árangri. Eftir að landamærum Grikklands og Makedóníu var lokað fyrr á þessu ári hefur straumur flóttafólks færst til Líbíu þar sem fólk freistar þess að komast yfir til Ítalíu og þaðan til annarra áfangastaða í Evrópu. Sjóleiðin til Ítalíu er mun hættulegri en þær sem voru áður farnar til Grikklands. Straumar og vindar eru öflugri á þessum slóðum, auk þess sem illa útbúin sjóför eru jafnvel enn hrörlegri en áður hafa þekkst.

Þegar þetta er skrifað er ljóst að um 3800 flóttamenn hafa drukknað á leið sinni frá Líbíu til Ítalíu. Þessi tala væri þó mun hærri ef björgunarskipa nyti ekki við. Tvö skip MOAS (Migrant Offshore Aid Station) eru gerð út til björgunaraðgerða þar sem Rauði krossinn sér um heilsugæslu um borð. Þetta eru skipin Phoenix og Responder, sem eru búin að koma yfir 12 þúsund flóttamönnum til bjargar á þessu ári. Frá árinu 2014 eru þessir einstaklingar 25 þúsund talsins. Það eru ótrúlegar tölur og um er að ræða hjálparstarf sem skiptir raunverulegu máli þar sem er örstutt milli lífs og dauða. Rauði krossinn hefur að auki varið 18,5 milljónum króna til björgunaraðgerða og fyrirhugar frekari fjárstuðning við þetta mikilvæga verkefni.


P-ITA1448

Jóhanna Jónsdóttir er hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað við slysa-og bráðamóttöku Landspítala Íslands. Hún starfaði á sínum tíma á tjaldsjúkrahúsi á vegum Íslensku friðargæslunnar í Pristina í Kósóvó í kjölfar stríðsátaka á Balkanskaga árið 2000. Þetta er fyrsta sendiför Jóhönnu fyrir Rauða krossinn.

Þórir Guðmundsson er margreyndur starfsmaður og sendifulltrúi Rauða krossins og hefur tekið þátt í verkefnum víðsvegar um heim, þar á meðal í gömlu Sovétríkjunum, Asíu, Austur-Evrópu og Afríku. Þórir starfaði um árabil sem fréttamaður á RÚV og Stöð 2 og hefur einnig verið upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi sem og sviðsstjóri hjálpar-og mannúðarsviðs (alþjóðasviðs) félagsins. 

Rétt er að minna á neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir björgunaraðgerðum í Miðjarðarhafi. Hægt er að leggja inn á reikning: 0342-26-12, kt. 530269-2649 og söfnunarnúmer eru einnig opin:

904 1500 fyrir 1500 króna framlag

904 2500 fyrir 2500 króna framlag

904 5500 fyrir 5500 króna framlag