Jólahefti Rauða krossins 2018 er komið út

26. nóvember 2018

Jólaheftum Rauða krossins var dreift inn á heimili landsins í síðastliðinni viku. Jólaheftið þetta árið er unnið í samstarfi við listamanninn Inga Hrafn Stefánsson, sem hefur margsinnis sýnt á vegum Listar án landamæra. List án landamæra er listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins og jákvæða birtingarmynd fólks með fötlun sem fullgildra þátttakenda í samfélaginu.22018-11-27-13_47_15-RKI-Girobaeklingur_2018.pdf-and-1-more-page-Microsoft-Edge

Ingi Hrafn hefur fengist við myndlist frá unga aldri og notið leiðsagnar á ýmsum stöðum, en síðustu tíu ár hefur hann unnið í vinnustofu á vegum Myndlistaskólans í Reykjavík. Í gegnum árin hefur hann starfað á vegum Listar án landamæra, m.a. í Norræna húsinu árið 2005, og haldið nokkrar einkasýningar, m. a. tvær í Hallgrímskirkju: í safnaðarheimilinu og í anddyri kirkjunnar en Hallgrímskirkja er einmitt megin viðfangsefni listamannsins. 

Rauði krossinn spurði listamanninn út í viðfangsefnið á jólaheftinu, Hallgrímskirkju. Ingi Hrafn segist alltaf hafa heillast af kirkjunni. Útsýnið frá turninum sé dásamlegt og starfsfólkið í kirkjunni taki alltaf vel á móti honum. Hann segist þekkja vel til starfa Rauða krossins því hann vinni mikið á Ás vinnustofu þar sem nokkrir starfsmenn Rauða krossins starfa. Sjálfur styður hann oft starf Rauða krossins með því að safna fötum og setja í Rauða kross gáminn en með þessu samstarfi geti hann styrkt starfið enn frekar.

Að lokum vill Ingi Hrafn jafnframt koma áleiðis hlýjum kveðjum til þeirra sem fá jólahefti Rauða krossins og vonar að það komi að góðum notum um jólin hvort sem fólk hafi tækifæri til að greiða fyrir heftið eða ekki.

Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka Inga Hrafni fyrir gott samstarf og taka undir orð hans um að jólaheftin komi vonandi að góðum notum við að merkja jólapakkana.