• Kristin_vb

Kristín ein af áhrifakonum á Íslandi

Viðskiptablaðið ræðir við framkvæmdastjóra Rauða krossins

29. júní 2016

Kvenréttindadeginum er fagnað ár hvert þann 19. júní og þess minnst að þann dag, árið 1915, fengu konur kosningarétt á Íslandi. Viðskiptablaðið gaf af því tilefni út fylgirit með útgáfu sinni 16. júní síðastliðinn en titillinn var„Áhrifakonur.“ Hér má lesa viðtal við Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi.  

Að láta fólki líða vel og fá það til verka
Kristín S. Hjálmtýsdóttirtók við framkvæmdastjórastöðu Rauða krossins í ársbyrjun, eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra alþjóðasviðs hjá Viðskiptaráði Íslands. Hún er með meistaragráðu í þjóðhagfræði frá Freiburg í Þýskalandi, en segist frekar vilja vinna með fólki en við þjóðhagsspár.

„Mannleg samskipti eru mitt áhugasvið og mér líður best þegar ég er með nógu marga bolta á lofti,“ segir Kristín. Víst er að bæði núverandi og fyrrverandi starf hennar uppfylla þessar kröfur. Í því fyrra byrjaði hún sem framkvæmdastjóri Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins en þegar hún hætti voru viðskiptaráðins em hún annaðist orðin 11. „Ég var mjög ánægð í fyrra starfi. Það var skemmtilegt að koma nýjum viðskiptaráðum af stað og ég átti góð og mikil tengsl við fólk og fyrirtæki í öllum þessum löndum.

Vildi ögra sér

Kristín ákvað að breyta til þegar fór að hægjast á í kringum félagslífið hjá börnunum hennar. Hún vildi ögra sér, var byrjuð að takast á við vatnshræðslu með sjósundi og ákvað í framhaldinu að fara að elda fyrir konurnar í Konukoti. Þannig kynntist hún Rauða krossinum. Í kjölfarið bauð hún sig fram til formennsku Reykjavíkurdeildar Rauðakrossins. „Það var líka mjög gefandi,“segir Kristín og bætir við að þótt sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum og forstjórar í viðskiptalífinu séu ólíkir hópar, ríki samt svolítið sömu lögmálin um þá. „Það eru allir með sína hagsmuni og skoðanir og þú þarft að láta fólki líða vel í kringum þig og fá það til verka.“ 

Segja má að framkvæmdastjórastaðan sé eðlilegt framhald á starfsferli Kristínar, enda ljóst að starfsvettvangurinn fellur jafnt að hæfileikum og áhugasviði hennar. „Rauði krossinn á Íslandi er heild sem samanstendur af starfsfólki og sjálfboðaliðum og við erum hluti af alheimshreyfingunni. Framkvæmdastjórinn hér þarf að vera vel tengdur og njóta velvildar, ekki einungis hjá ráðuneytum og sveitarfélögum, heldur líka fyrirtækjum og almenningi. Orðspor Rauða krossins er svo mikilvægt og enginn blettur má falla á það. Mitt hlutverk felst í að halda á öllum þráðum og fá alla til að ganga í takt og þar liggur styrkur minn.“ 

Kristín segist finna að hún sé ákveðin fyrirmynd, ekki síst í nærumhverfinu. „Börnin mín skynja að ekkert stoppar mig. Éger ófeimin við að taka ákvarðanir og set mig aldrei í neinar stellingar. Ég er alin þannig upp að maður eigi að auðsýna virðingu og koma jafnt fram við alla og það er mitt meginstef í lífinu.“

Viðtalið birtist fyrst í fylgiriti Viðskiptablaðsins:  „Áhrifakonur,“ 16. júní 2016.