Landsbankinn og Framúrskarandi fyrirtæki styðja jólaaðstoð Rauða krossins

14. nóvember 2018

Þann 14. nóvember sl. veitti Creditinfo 857 fyrirtækjum viðurkenningu sem Framúrskarandi fyrirtæki. Til að fagna þessum góða árangri í verki veitir Landsbankinn styrk við ýmis góð málefni sem afhentur er í nafni allra Framúrskarandi fyrirtækja 2018. Að þessu sinni rennur styrkurinn, að fjárhæð tvær milljónir króna, til jólaaðstoðar Rauða krossins á Íslandi.

Rauði krossinn á Íslandi veitir fólki sem býr við fátækt eða á í erfiðleikum, sérstaka aðstoð fyrir jólin með hjálp frá almenningi og fyrirtækjum.

Markmið jólaaðstoðar Rauða krossins er að aðstoða þá sem eiga erfitt með að halda gleðileg jól vegna bágrar fjárhagsstöðu. Árið 2017 þáðu um 800 manns víðsvegar um landið jólaaðstoð. Á bakvið úthlutanir eru gjarnan fjölskyldur og er fjöldinn sem nýtur góðs af aðstoðinni því töluvert meiri. Undanfarin ár hefur umsóknum fækkað en þeir sem sækja um aðstoð þurfa á meiri hjálp að halda og eru verr staddir en oft áður. Fólki í neyð er ávallt bent á að snúa sér til deilda Rauða krossins á sínu heimasvæði en deildir félagsins um allt land veita aðstoð til einstaklinga og fjölskyldna fyrir jólin, oft í samvinnu við mæðrastyrksnefndir og Hjálparstarf kirkjunnar á hverjum stað.