• Benni

Ljósmyndabók úr heimsreisu til styrktar flóttabörnum

Benedikt  komst að því að bros er alltaf bros

18. nóvember 2016

Benedikt Benediktsson er ungur Reykvíkingur sem lagði land undir fót snemma á árinu 2016. Hann heimsótti fjórar heimsálfur og kynntist fólki um allan heim. Benedikt var fljótur að átta sig á því að bros er sameinandi afl, hvert sem hann steig niður fæti. Bros er eins á öllum tungumálum og oft það eina sem þarf til að búa til frjóan jarðveg frekari samskipta. 

Smilewithme


Benedikt fékk fólk til að brosa með sér á ljósmyndum og auk þess hélt hann í hönd fólksins sem er með honum á myndunum. Vinir og kunningjar Benna gátu fylgst með á samfélagsmiðlinum Instagram, þar sem myndunum var safnað saman undir myllumerkinu #smilewithme. 

Þegar heim var komið sá Benedikt að hann var með eitthvað í höndunum sem gæti prýtt fallega bók. Hann ákvað því að leggja af stað í verkefni, að setja upp bók með bestu ljósmyndum heimsreisunnar og fara í söfnun fyrir prentun bókarinnar. Hann ákvað um leið að halda áfram að fá fólk til að brosa. Í þetta sinn langar hann að hjálpa flóttabörnum á Íslandi að brosa sem breiðast. Allur ágóði bókarinnar Smile With Me fer nefnilega óskiptur til Tómstundasjóðs flóttabarna á Íslandi en það er Rauði krossinn sem heldur utan um sjóðinn. 

Hér er hægt að styðja við verkefnið og panta bók. Það er gaman að segja frá því að nú er ljóst að verkefnið verður að veruleika, svo mikið er víst. En því fleiri eintök sem seljast, þeim mun hærri upphæð rennur til flóttabarna. 

Rauði krossinn þakkar fyrir sig og hvetur fólk um leið til að styðja verkefnið.