Lof mér að falla styrktarsýning

16. október 2018

Fimmtudaginn 18. október verða haldnar sérstökar styrktarsýningar á "Lof mér að falla". Sýningin í Borgarbíó Akureyri hefst klukkan 17:00 og í Háskólabíói klukkan 20:50 og 21:00. Að sýningu lokinni í Háskólabíó munu Baldvin Z leikstjóri kvikmyndarinnar og verkefnastýra Frú Ragnheiðar Svala Jóhannesdóttir sitja fyrir svörum. Allur aðgangseyrir rennur til skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiðar, Ungfrú Ragnheiðar á Akureyri og Konukots. 

Verkefnin Frú Ragnheiður og Ungfrú Ragnheiður hafa það markmið að ná til jaðarsetta hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin, sex kvöld í viku. Ungfrú Ragnheiður er á ferðinni frá kl. 20-22 á mánudögum og fimmtudögum. Nánari upplýsingar má fá hér.

Konukot er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og er ætlað að sinna grunnþörfum hvað varðar húsnæði, hreinlæti og mat. Athvarfið er opið frá kl. 17:00 til kl. 10:00 daginn eftir og eru rúm fyrir tólf konur. Allar þær konur sem á þurfa að halda eru boðnar velkomnar í Konukot. Nánari upplýsingar um Konukot eru hér.

Einnig er hægt að styrkja skaðaminnkandi verkefni Rauða krossins um 1900 kr. með því að senda SMS-ið TAKK í númerið 1900.