Neyðarsöfnun vegna COVID-19 í Malaví lokið

Alls söfnuðust um 600.000 krónur

10. mars 2021

Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna COVID-19 í Malaví er lokið. Alls söfnuðust tæplega 600.000 krónur sem fara til eflingar Rauða krossinum í Malaví. Faraldurinn óx hratt í byrjun árs en aftur hefur náðst að hefta útbreiðsluna og fyrstu skammtar af bóluefni hafa borist til landsins. Heilbrigðiskerfi landsins er veikt fyrir og því afskaplega mikilvægt að koma böndum á útbreiðsluna hratt og örugglega.

Rauði krossinn eru stærstu hjálparsamtök Malaví
Tugþúsundir sjálfboðaliða félagins sinna mikilvægu hlutverki í viðbragðskerfi landsins. Við á Íslandi þekkjum vel mikilvægi þess að geta treyst á vel þjálfaða sjálfboðaliða um land allt - í borgum, bæjum og sveitum – þegar bregðast þarf hratt við og koma mikilvægum upplýsingum til skila.

Frá aldamótum hefur Rauði krossinn á Íslandi starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví, bæði að verkefnum í þróunarsamvinnu og að ýmsum neyðaraðgerðum sem sífellt verða tíðari vegna hamfarahlýnunar. Frá því veiran greindist fyrst í Afríku hefur Rauði krossinn lagt áherslu á forvarnir og fræðslu um smitleiðir, mikilvægi handþvottar, grímunotkun, dreifingu hlífðarbúnaðar og þess að viðhalda nálægðarmörkum. Mikil vinna hefur farið í að leiðrétta sögusagnir og tryggja réttar upplýsingar.

Rauði krossinn vill þakka öllum þeim sem studdu við söfnunina fyrir þeirra mikilvæga framlag. Takk fyrir stuðninginn!