• Stjornendathjalfun

Neyðarvarnarmálþing Rauða krossins

Um 90 sjálfboðaliðar hvaðanæva af landinu komu saman

7. október 2019

Um helgina fór fram neyðarvarnarmálþing Rauða krossins á Heimalandi undir Eyjafjöllum.

Neyðarvarnir eru eitt af mikilvægustu verkefnum Rauða krossins um allt land. Á ári hverju bregðast sjálfboðaliðar við fjölda alvarlegra atburða, svo sem náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum. Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang.

Um 90 sjálfboðaliðar hvaðanæva af landinu mættu á þingið þar sem áhersla var lögð á fjalla um sálrænan stuðning og stjórnendaþjálfun í neyðarvörnum. Á þinginu hélt Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi erindi um almannavarnir á Suðurlandi, en þar eru ýmsir áhættuþættir t.a.m. vegna eldgosa, flóða og fjölda ferðamanna á þeim slóðum. Þá hélt Kristín Jónsdóttir, hópstjóri jarðvár á Veðurstofunni erindi um náttúruvá.

Verkefni Rauða krossins hafa aukist verulega á síðustu árum og vel þjálfaðir sjálfboðaliðar eru tilbúnir að bregðast við útköllum vegna ýmissa atburða.

Neydarvarnarmalthing-Heimavollum

Á þessu ári hefur Rauði krossinn sinnt útköllum vegna alls 84 atburða:

 

 • 8 húsbrunar
 • 27 voveifleg dauðsföll og slys
 • 19 sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og hungurverkföll
 • 4 bílslys
 • 9 árásir, innbrot og önnur ólögmæt athæfi
 • 4 flugatvik
 • 2 flugslys
 • 5 sjóslys
 • 1 hætta á gróðureldum
 • 1 jarðskjálftahrina Norðurlandi
 • 2 rútuslys
 • 1 gjaldþrot fyrirtækis
 • 1 fjöldahjálparstöð vegna veðurs
 • Auk fjölmargra æfinga

Stuðningur Mannvina Rauða krossins skiptir sköpum fyrir Neyðarvarnir Rauða krossins og hefur m.a. tryggt að neyðarvarnarkerrur eru nú til staðar í öllum landshlutum.

IMG_6290