Neyðarvarnir bjarga lífum

Flóð í Malaví

1. júlí 2019

Í byrjun mars á þessu ári gekk fellibylurinn Idai yfir Mósambík, Malaví og Simbabve. Í löndunum þremur skildu fellibylurinn og ofsaflóð eftir sig mikinn fjölda látinna og slasaðra. Eyðileggingin var gríðarleg og mikill fjöldi fólks missti heimili sín og lífsviðurværi. Rauði krossinn á Íslandi veitti rúmum 18 milljónum króna til neyðaraðgerða í langtímasamstarfslandi sínu Malaví, þar sem um 870.000 manns urðu fyrir barðinu á veðurofsanum. Þá var Róbert Þorsteinsson sendifulltrúi fljótt kallaður til Malaví til að styðja fjármálaumsýslu neyðaraðgerða Rauða krossins í Malaví.

Loftslagsbreytingar valda því miður sífellt oftar veðurhamförum í þessu fátæka landi. Skyndileg ofsaflóð hrifsa með sér líf og leggja heimili í rúst og langvinnir þurrkar valda reglulega uppskerubresti. Slík áföll geta fært fólk sem lifir af sjálfsþurftarbúskap við sárafátækt aftur á algeran byrjunarreit í lífsbaráttunni. Rauði krossinn á Íslandi hefur í áraraðir unnið með systurfélagi sínu í Malaví að langtímaþróunarsamstarfi í samvinnu við danska, finnska og ítalska Rauða krossinn. Einn helsti áhersluþáttur samstarfsins er uppbygging sterkra neyðarvarna á helstu áhættusvæðum. Náin samvinna Rauða krossins við veðurfræðistofnanir og stjórnvöld í Malaví eru ein undirstaða neyðarvarna og gefur Rauða krossinum tækifæri til að virkja viðbragðsteymi sín í tæka tíð.

Idai gerði boð á undan sér með miklu rigningarveðri og sterkum vindhviðum 5. mars, tíu dögum áður en hann reið yfir Malaví. Vel þjálfaðir sjálfboðaliðar viðbragðsteyma Rauða krossins fengu boð um að fara í viðbragðsstöðu. Vopnuð mælistikum, farsímum, trommum og flautum fylgdust þau grannt með aðstæðum. Þegar vatnshæð áa náði upp að hættumörkum gáfu þau viðvörunarmerki og sáu til þess að þorpsbúar náðu að taka sínar mikilvægustu eigur og flýja upp á rýmingarsvæði.

1_1561973568298Chimwemwe Dibwa, 44 ára sjálfboðaliði viðbragðsteymis í Chikwawa-héraði. Ljósmynd: Eskil Meinhardt Hansen

 

Chikwawa-hérað í sunnanverðu Malaví er eitt fátækasta hérað landsins og eitt þeirra héraða sem hvað verst fór út úr flóðunum. Chimwemwe Dibwa, 44 ára sjálfboðaliði í Chickwawa, hlaut þjálfun neyðarvörnum í fyrra og gekk í í kjölfarið til liðs við viðbragðsteymi Rauða krossins í þorpinu sínu. Þegar rigningarveðrið hóf að magnast í upphafi marsmánaðar fékk hún skilaboð um að fylgjast með vatnshæð Shire-árinnar, sem hún býr við. Við setjum mælistiku í vatnið og notum litakóða – grænt, gult og rautt. Ef vatnið nær gula litnum vitum við að þá er kominn tími til að vara fólk við,‘‘ segir Chimwemwe.

Viðbragsðkerfi virkjað nokkrum dögum áður

2_1561974384523Sjálfboðaliði Rauða krossins vinnur að uppsetningu tjalda á rýmingarsvæði

„Nokkrum dögum áður en Idai kom inn til lands í Malaví veittu loftslags- og veðurspár sterkar vísbendingar um að hann myndi reiða yfir landið, eða að minnsta kosti yrði veðurofsinn það gríðarlegur að allar líkur væru á að mikil neyð gæti skapast,“ segir Guðný Nielsen, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. „Því var ákveðið að virkja næsta hluta viðbragðskerfisins sem felur í sér að veita fjármagni strax í viðbúnað, áður en neyðin kemur upp. Á ensku kallast þessi aðferðafræði Forecast-based Financing og er hún farin að ryðja sér til rúms víða um heim á svæðum sem oft verða fyrir barðinu á afleiðingum loftslagsbreytinga. Þessi aðferðafræði skiptir sköpum í neyðarstarfi. Það segir sig sjálft að mun betra er að veita fjármagni og hjálpargögnum á hamfarasvæði fyrirfram og vera tilbúinn að veita fólki stuðning þegar hamfarirnar skella á, heldur en að koma því á svæðin eftir að neyðin kemur upp. Rauði krossinn var búinn að koma upp neyðarskýlum, mat, salernum og hreinlætisaðstöðu á rýmingarsvæðum áður en fólkið rýmdi þorpin.“

3_1561974561379Vegir og brýr stóðu víða ekki af sér vatnsflaum árinnar Shire

Þann 8. mars var neyðarástandi lýst yfir í sunnanverðu landinu og var Rauði krossinn þá þegar önnum kafinn við neyðaraðgerðir flóðasvæðum. Vegir og brýr höfðu víða farið illa úr flóðunum, sem gerði aðkomuna flókna og fóru starfsmenn og sjálfboðaliðar félagsins um á bátum og björguðu fólki. Í búðum á rýmingarsvæðunum dvaldi fólk, sem hafði misst allt sitt og hafði ekki í önnur hús að vernda, við mikinn þéttleika svo vikum skipti. Þar þáði það mat, hreinlætisvörur, aðrar nauðsynjar og stuðning starfsfólks og sjálfboðaliða Rauða krossins.

Hætta á smitsjúkdómum eykst í kjölfar hamfara
„Eins og gefur að skilja er gríðarlega mikilvægt að viðhalda lágmarks hreinlætisviðmiðum í búðum, þar sem margt fólk býr þétt, til að koma í veg fyrir smit og ýmsa sjúkdóma. Sem betur fer náðist að koma í veg fyrir kólerusmit, en það getur verið mjög erfitt að fást við þennan lífshættulega sjúkdóm í svona miklum þéttleika,“ segir Guðný. Langtímaþróunarsamstarfið á þessum svæðum undanfarin ár hefur að miklu leiti snúið að eflingu heilbrigðis íbúa. Í því felst útbreiðsla þekkingar um smitsjúkdóma og vitundarvakning um nauðsyn hreinlætis, m.a. til að sporna gegn kóleru sem er skæð á mörgum svæðum í landinu. „Það var því auðveldara en ella að koma í veg fyrir og halda smitsjúkdómum í skefjum vegna þess að fólk hafði þessa þekkingu og kunni að búa að sér og fjölskyldu sinni í búðunum, á öruggan hátt með viðunandi hreinlæti,“ segir Guðný.

Endurbyggingin risa stórt verkefni

4_1561975760892Faðir og börn í búðum á rýmingarsvæði Rauða krossins

Þegar mestu flóðin tóku að sjatna gat fólk farið að snúa aftur heim og hafist handa við að endurbyggja heimili sín. Margir höfðu misst allt sitt í veðurofsanum og þurftu því stuðning við sjálfa endurbygginguna. Ellegar hefði fólkið þurft að hafast áfram við í búðunum. Ákveðið var að dreifa byggingarefni og áhöldum til berskjölduðustu fjölskyldnanna. Róbert Þorsteinsson, sendifulltrúi, var viðstaddur fyrstu dreifinguna sem fram fór í Chikwawa, einu þeirra þriggja héraða sem Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið í til fjölda ára. „Ástæða þess að svo margir íbúar fóru illa út úr flóðunum í Chikwawa er hve mörg þorp standa við bakka árinnar Shire, en hún flæddi yfir bakka sína í kjölfar fellibylsins.“

5_1561975988563Hjálpargögnum dreift til kvenna sem misst höfðu í flóðunum.

„Það var ótrúlegt að sjá hvað fólkið var kurteist og þolinmótt, en dreifingin stóð allan daginn í 36 gráðu hita,“ segir Róbert. „Þarna hitti ég hinn 19 ára Tómas sem kom með ömmu sinni að bera byggingarefni og hjálpargögn heim. Ég hitti hann snemma morguns og svo aftur í lok dags, en þá var hann að safna umbúðum sem höfðu verið utan um hjálpargögnin. Þegar hann sá mig þá spurði hann hvort ég myndi eftir sér og hann varð svo ánægður þegar ég játaði því. Hann talaði góða ensku og vissi mikið um íslenskan fótbolta. Ég held að mörgum sem vinna við hjálparstarf finnist þeir aldrei gera nóg og því eru svona augnablik, þegar maður nær að tengjast fólkinu, svo mikilvæg.“

6_1561976471353Börn safna umbúðum eftir dreifingu Rauða krossins. Ljósmynd: Róbert Þorsteinsson.

Rauði krossinn er oftar en ekki fyrsti viðbragðsaðilinn
„Það hefur sýnt sig að íbúar Malaví bera almennt mikið traust til Rauða krossins, einmitt vegna þess að Rauði krossinn er oftar en ekki fyrsti viðbragðsaðili, ekki síst vegna þess að það þekkir sjálfboðaliðana, sem búa á staðnum. Margir sjálfboðaliðanna búa á flóðasvæðunum og misstu allt sitt í flóðunum. Þrátt fyrir það stóðu þau vaktina og brugðust skjótt við með viðamikla þjálfun í farteskinu og sáu til þess að mikil mannbjörg varð þegar flóðin riðu yfir,“ segir Guðný.„Eins og á Íslandi, felst styrkleiki Rauða krossins í Malaví í starfi deilda á vettvangi, þar sem fólk úr sjálfum þorpunum á verkefnasvæðunum eru sjálfboðaliðar sem koma beint að framkvæmd verkefna í sínu nærumhverfi,“ segir Róbert. „Við Íslendingar höfum upplifað svipað í snjóflóðum, eldgosinu í Vestmannaeyjum og öðrum hamförum, en þar hafa deildir Rauða krossins í viðkomandi bæjarfélögum tekið þátt í björgunarstarfi og aðhlynningu við þá sem eiga um sárt að binda.“

7_1561976717474Moses, Kassim and Daud eru sjálfboðaliðar í viðbragðsteymi Rauða krossins notuðu farsíma, flautur og trommur til að gefa fólki skilaboð um að rýma þorpin sín í Mangochi-héraði.

Róbert varði tveimur mánuðum í Malaví. „Hlutverk mitt fyrir hönd Rauða krossins var að hafa eftirlit með fjármunum í neyðaraðgerðunum; yfirfara fjármálaáætlanir, skoða innkaup, kanna útgjöld og kalla eftir kvittunum,“ segir hann. „Rauði krossinn hafði starfsstöðvar í öllum héruðum nema einu áður en hamfarirnar gengu yfir. Þar opnaði félagið skrifstofu stuttu eftir flóðin. Ég heimsótti öll héruðin sem veðurhamfarirnar snertu og sum þeirra nokkrum sinnum til að fylgja eftir fjárframlögum og ganga úr skugga um að þau væru nýtt eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.“

 

Rauði krossinn á Íslandi veitir tækniaðstoð
Rauði krossinn í Malaví hefur undanfarin ár átt erfitt uppdráttar, m.a. vegna þess að félagið hefur skort bókhaldsforrit. Síðustu tvö ár hefur Rauði krossinn á Íslandi, ásamt öðrum samstarfsfélögum í Rauða kross hreyfingunni, stutt viðamikla uppbyggingu fjármálasviðs malavíska félagsins og hefur sú uppbygging verið mjög þýðingarmikil. „Það er ánægjulegt að sjá hve vel starfsfólkið hefur tileinkað sér bætta starfshætti og tekið breytingum á fjármálasviðinu fagnandi. Á miklum neyðartímum hafa þau náð að vinna á ótrúlega skipulegan hátt undir miklu álagi,“ segir Guðný.

Mannvinir skipta máli
Einn helsti styrkur Rauða krossins á Íslandi er hve fljótt hann getur brugðist við neyðarbeiðnum. Félagið nýtur stuðnings Mannvina,  styrktaraðila sem leggja félaginu til 2000-3000 kr. mánaðarlega. Framlög Mannvina eru nýtt til helmings innanlands (Hjálparsíminn 1717 og neyðarvarnir) og erlendis (þróunarsamstarf og neyðarviðbrögð). 

„Það er ekki síst fyrir tilstuðlan Mannvina og stuðning íslenskra stjórnvalda að við gátum brugðist við í tæka tíð þegar Idai og verðurhamfarirnar riðu yfir Malaví. En, vænst þykir mér um að þessi dyggi og áreiðanlegi stuðningur gerir okkur kleift að styðja systurfélög okkar á fjarlægum slóðum við uppbyggingu neyðarvarna sem bjarga mannslífum í stað þess að bíða bara eftir að hamfarir verða og mannskaðinn sem fylgir þeim,“ segir Guðný.