Formaður Rauða krossins heimsækir stjórnarfund Rauða krossins í Kópavogi

8. október 2014

Stjórn Rauða krossins í Kópavogi fékk til sín góðan gest á stjórnarfund í september. Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, mætti á fundinn þar sem rædd voru helstu mál félagsins. Það er gaman að segja frá því að andrúmsloftið á fundunum er alltaf létt og skemmtilegt, t.d. hefur myndast frábær hefð þar sem að stjórnarmaður fær að velja sitt uppáhaldslag í upphafi stjórnarfunda. Að þessu sinni fékk formaður félagsins að velja sitt lag og fyrir valinu varð lagið Sólskin. Lagið er samið og sungið af dóttur Sveins en textann á formaðurinn sjálfur. Hér má hlusta á lagið - Sólskin 

Einnig má geta þess að stjórn Rauða krossins í Kópavogi tók upp þann skemmtilega sið í vor að halda stjórnarfundi sína þar sem verkefni deildararinnar fara fram. Stjórnin hefur fundað í húsnæði Fataflokkunar að Skútuvogi 1 þar sem hún fékk í upphafi fundar fræðslu um hlutverk flokkunarstöðvar. Í síðasta mánuði var fundað i Rauðakrossbúðinni við Hlemm og ræddu stjórnarmenn við sjálfboðaliða sem voru á vakt þann daginn. Næsti fundur stjórnar verður haldinn í húsnæði Rauða krossins í Reykjavík og mun í upphafi fundar fá fræðslu um Hjálparsímann 1717.