Skyndihjálparkynningar fyrir 3200 grunnskólabörn í Kópavogi

6. nóvember 2014

Rauði krossinn á Íslandi verður 90 ára þann 10. desember 2014. Afmælisárið hefur verið tileinkað skyndihjálp og ákvað Rauði krossinn í Kópavogi meðal annars að bjóða upp á skyndihjálparkynningar í öllum grunnskólum bæjarins.
Hrafnhildur Helgadóttir hefur séð um kynningarnar fyrir hönd Rauða krossins í Kópavogi. Hrafnhildur er fyrrverandi starfsmaður Rauða krossins í Kópavogi, hún er kennari að mennt og er nú í hjúkrunarnámi.

Síðastliðna tvo mánuði hefur Hrafnhildur haldið 26 kynningar fyrir rúmlega 3200 grunnskólabörn. Hrafnhildur hefur nú klárað sína síðustu kynningu en samkvæmt henni gengu kynningarnar vonum framar! Skólastjórnendur og nemendur tóku vel á móti henni og voru skólahjúkrunarfræðingar ánægðir með þessa viðbót við þeirra fræðslu.

Hrafnhildur nýtti sér fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir til að ná til nemenda. Hún sýndi þeim meðal annars skyndihjálparappið og skyndihjálparlagið, sem þið getið skoðað hér.
Þessar kynningar hafa þannig bæði verið hrikalega skemmtilegar, fræðandi og nytsamlegar! 

Að lokum viljum við þakka Hrafnhildi innilega fyrir hennar framlag um leið og við þökkum grunnskólum Kópavogs og nemendum fyrir frábærar móttökur!