Prjónakaffi í Kópavogi

1. desember 2014

Síðasta miðvikudag hittust prjónakonurnar okkar í verkefninu Föt sem framlag í kaffi hérna í Hamraborginni. Þessir duglegu sjálfboðaliðar prjóna óteljandi flíkur yfir mánuðinn og hittast síðan alltaf í lok mánaðar til að skila afrakstrinum af sér. Þær sækja sér í leiðinni nýtt garn, setjast niður og fá sér kaffi og ræða málin. Oft taka þær einnig upp prjónana til að nýta tímann sem best. Prjónakaffið í síðustu viku var það síðasta fyrir jólin. Við viljum því nýta tækifærið og þakka frábæru sjálfboðaliðunum okkar í Föt sem framlag innilega fyrir alla þeirra vinnu á árinu! Við óskum ykkur gleðilegra jóla og hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.