• Mynd-cc-by-nc-nd-icrc-ali-yousef

Ný skýrsla frá IFRC

10. júlí 2018

Ný skýrsla Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) um að hindranir að grunnþjónustu breyti fólksflutningum í mannúðarvanda, greinir frá ýmsum þáttum sem hindra farandfólk (e. migrants) í viðkvæmri stöðu til að fá þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Hindanirnar eru allt frá augljósari þáttum t.d. ótta við áreitni, handtöku eða brottvísun til faldari þátta s.s. hás kostnaðar, menningarmunar og tungumálaörðugleika auk skorts á upplýsingum um réttindi fólks.

Þá setja ríkisstjórnir í sumum hlutum heimsins lög sem glæpavæða mannúðaraðstoð, þ.m.t. leit og björgun og lífsnauðsynlega aðstoð fyrir óskrásett farandfólk.

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans óskar eftir því að ríki tryggi að landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í hverju ríki fyrir sig, sem og önnur hjálpar- og mannúðarsamtök, geti aðstoðað farandfólk óháð stöðu þeirra og án þess að eiga á hættu að vera handtekin. Slík aðstoð getur verið lögfræðileg aðstoð, upplýsingagjöf um réttindi einstaklinga, skyndihjálp, heilbrigðisþjónusta, athvörf fyrir fólk sem og sálrænn stuðningur.

 

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Þótt ágreiningur geti verið um stefnu í málefnum innflytjenda, fólks á flótta og farandfólks er engin stefna sem getur réttlætt þjáningar fólks í viðkvæmri stöðu.
  • Víðsvegar um heiminn verða auknar hindranir að nauðsynlegri þjónustu á vegi farandfólks, s.s. heilbrigðisþjónustu, athvarfi eða skjóli, mat og lögfræðiþjónustu.
  • Hindranirnar eru allt frá augljósari þáttum t.d. ótta við áreitni, handtöku eða brottvísun til duldari þátta s.s. hás kostnaðar, menningarmunur og tungumálaörðugleika auk skorts á upplýsingum um réttindi.
  • Það að takmarka eða koma alveg í veg fyrir aðgang að grunnþjónustu virðir mannréttindi, sem allir eiga rétt á, að vettugi. Auðveldara er að ráða við fólksflutninga þegar öryggi og virðing fólks í viðkvæmri stöðu er tryggt.

Ríki og mannúðarsamtök ættu að vinna saman að því að tryggja aðgang að nauðsynlegri þjónustu fyrir allt farandfólk í viðkvæmri stöðu.

  • Alþjóðasamningur um farandfólk (e. The Global Compact for Migration) er tækifæri til að tryggja að allt farandfólk, óháð stöðu, hafi aðgang að þeirri mannúðaraðstoð sem á þarf að halda. Ríki geta gert ýmsar ráðstafanir til þess, t.d. að setja upp „eldveggi“ milli framkvæmdavalds í innflytjenda- og útlendingamálum og annarrar opinberrar þjónustu, s.s. að heilbrigðisstarfsmenn þurfi ekki að tilkynna öðrum stofnunum ef einstaklingar hljóta aðstoð.

Skýrsluna má lesa hér.