• Hveragerdi

Öflugir sjálfboðaliðar í Hveragerði

Útbúa fatapakka fyrir fátæk börn í Hvíta-Rússlandi

10. nóvember 2016

Í Hveragerðisdeild er mikið og fjölbreytt sjálfboðastarf og í hverri viku allan veturinn kemur saman fjölmennur hópur sjálfboðaliða til að útbúa fatapakka sem sendir eru til fátækra barna í Hvíta Rússlandi. Þetta eru staðlaðir pakkar með fatnaði fyrir börn frá fyrsta ári til tólf ára og leggja sjálfboðaliðar mikinn metnað í að í pakkana fari vandaður og fallegur fatnaður sem veitir hlýju í vetrarkuldanum í Hvíta Rússlandi.

Að taka þátt í sjálfboðastarfi sem þessu veitir þátttakendum mikla ánægju. Ekki aðeins eru þátttakendur að hjálpa þeim sem minna mega sín í fjarlægu landi, heldur er einnig mikill og góður félagsskapur sem myndast í svona sjálfboðastarfi. Það er oft mikið hlegið og ekki spillir fyrir að alltaf er góður kaffisopi á könnunni og oftar en ekki er líka boðið uppá dýrindis heimabakað kaffibrauð  sem sjálfboðaliðar koma með sér, stundum jafnvel volgt úr bakarofninum heima.