Palestínskur sjúkraflutningamaður Rauða hálfmánans lést við störf á Gaza

11. júní 2019

Mohammad Judeili, sjúkraflutningamaður Rauða hálfmánans í Palestínu lést í gær, en hann var skotinn fyrir rúmum mánuði af Ísraelsher þar sem hann stóð vaktina og sótti slasaða á Gaza. Mohammad hafði legið þungt haldinn síðan hann varð fyrir gúmmíhúðaðri málmbyssukúlu sem ísraelskur hermaður skaut þann 3. maí síðastliðinn. Byssukúlan fór í gegnum nefið á honum með þeim afleiðingum að hann hlaut höfuðkúpubrot.

Það verður seint brýnt nógu oft fyrir stríðandi fylkingum hve gróft brot á alþjóðlegum mannúðarlögum slíkar árásir eru. Hermenn skulu, skv. þeim ekki hindra að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið starf sitt á vettvangi og ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað. Hjálparstarfsfólk á átakasvæðum eru ekki skotmark.

Rauði krossinn Íslandi styður Rauða hálfmánann í Palestínu
Sjúkraflutningamenn í Palestínu sinna starfi sínu við afar hættulegar og erfiðar aðstæður. Líkt og Rauði krossinn á Íslandi sinnir Rauði hálfmáninn í Palestínu rekstri sjúkrabíla. Með aðstoð íslenskra lækna og sjúkraflutningamanna hafa palestínskir sjúkraflutningamenn fengið þjálfun sem gerir þá hæfari til að flytja sjúklinga við erfiðar aðstæður eins og þær sem ríkja á Gasasvæðinu.

Stuðningur Mannvina, mánaðarlegra styrktaraðila Rauða krossins, gerir okkur kleift að veita bræðrum okkar og systrum fyrir botni Miðjarðarhafs lífsbjargandi aðstoð.