• Pall-og-magna-bjork

Páll og Magna Björk að störfum

Á þriðja tug sendifulltrúa hafa farið til starfa síðan í september sl.

13. júlí 2018

Sendifulltrúarnir og hjúkrunarfræðingarnir Páll Biering og Magna Björk Ólafsdóttir eru að störfum á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins í Cox´s Bazar í Bangladess.

Páll verður við störf í um tvo mánuði sem sérfræðingur í áfallahjálp og sinnir sálrænum stuðningi til flóttafólks, sjálfboðaliða og starfsfólks Rauða krossins bæði á sjúkrahúsinu sjálfu og í flóttamanna-búðunum. Magna Björk mun starfa í um mánuð á bráðamóttöku og legudeild sjúkrahússins.

Bæði hafa þau áður farið í sendiferðir fyrir Rauða krossinn, Páll til Nígeríu, Jemen og Grikklands og Magna Björk til Haití, Írak, Kenía, Filippseyja, Suður-Súdan og til Sierra Leone.

Heida15   Drengir dunda sér á leiksvæði sjúkrahússins.

Formaður Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans (ICRC), Peter Maurer, skoðaði aðstæður í Mjanmar og Bangladess í byrjun júlí. Hann fór bæði til Rakhine-héraðs í Mjanmar, þaðan sem fólk flýði vegna ofbeldis, og skoðaði flóttamannabúðirnar hinum megin landamæranna, í Cox´s Bazar í Bangladess. Maurer segir fólk beggja megin þjást, bæði þau sem urðu eftir og þau sem fóru. Það vanti öruggt húsaskjól, rafmagn, salernisaðstöðu, lyf og heilbrigðisþjónustu. Fólk er milli steins og sleggju, býr við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðunum en getur ekki snúið til baka og þar taki ekki endilega betri aðstæðurnar við.

„Alþjóðaráð Rauða krossins auk ýmissa landsfélaga Rauða krossins hafa brugðist við neyðinni eins og þau mest mega, t.d. með því að deila út matargjöfum og aukið það enn frekar nú þegar regntímabilið stendur yfir en það eru ekki langtíma-lausnir. Fólk þarf varanleg svör og von fyrir framtíðina“ segir Maurer.

Allir leggja sitt af mörkum, íbúar í Cox´s Bazar hafa tekið flóttafólkinu opnum örmum en Bangladess er eitt fátækasta ríki heims og ástandið hefur skapað álag á samfélagið sem var þar fyrir. Mannúðaraðstoðin ein mun ekki leysa þessi vandamál, það þarf pólitískan vilja og lausnir en Maurer hitti áhrifafólk í stjórnmálum bæði í Mjanmar og Bangladess og frumkvæði hefur verið tekið að því að leysa vandann en enn án árangurs á meðan líf fólks er í biðstöðu.

 Hægt er að gerast Mannvinur Rauða krossins hérog styðja þannig m.a. farir sendifulltrúa til Bangladess.