• 2017-03-09-17.04.17

Prjóna bangsa fyrir sjúkrabíla

16. mars 2017

Þessar mögnuðu konur sem allar eru kennarar í Foldaskóla sáu frétt um norskan prjónahóp sem prjónar bangsa og gefur þá til sjúkrabíla fyrir þau yngstu sem flutt eru með sjúkrabílum. Þær tóku sig saman og byrjuðu einnig að prjóna bangsa eftir uppskrift frá henni Vilborgu og afhentu fulltrúum Rauða krossins og sjúkraflutningamönnum við hátíðlega athöfn í Efstaleiti 9.

Sjúkraflutningamennirnir sögðu þá myndu koma að góðum notum, bæði hjálpa börnum sem flutt eru með sjúkrabílnum sem og börnum sem eru viðstödd þegar sjúkrabíll kemur á staðinn að flytja einhvern þeim nákominn en þetta geta verið ákaflega erfiðar lífsreynslur.

2017-03-09-16.40.03

Samstarfskonurnar hafa vakið mikla athygli á kennarastofunni og margir hafa tekið í prjónana eða aðstoðað á einhvern hátt síðan þær fóru af stað með verkefnið. Þær settu hugmyndina inn í Facebook-hópinn Handóðir prjónarar þar sem hugmyndin vakti athygli og vonast þær til að efla prjónaáhugafólk í öllum landshornum við að taka upp prjónana og setja sig í samband við fulltrúa Rauða krossins og sjúkrabílanna í sinni heimabyggð. Þær hafa núna stofnað Facebook-síðuna Sjúkrabílabangsar þar sem nálgast má uppskriftina og fleira - https://www.facebook.com/foldaskoli

Á myndinni má sjá þær Brynju Bjarnadóttur, Jóhönnu Lovísu Gísladóttur, Vilborgu Einarsdóttur og Arndísi Hilmarsdóttur, sjúkraflutningamennina góðu og Marinó Má Marinósson verkefnastjóra sjúkrabíla hjá Rauða krossinum. Auk þess hefur Árný Jóna Jóhannesdóttir lagt þeim lið við prjónasakapinn.

Rauði krossinn er afar þakklátur fyrir þetta framlag en vonast þó til að bangsarnir gangi sem hægast út!