• IMG_06351

Rauði krossinn á Íslandi aðstoðar flóttafólk í Úganda

28. júní 2017

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent rúmlega 20 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins í Úganda vegna mikils fjölda flóttamanna frá Suður-Súdan þar í landi.

Vegna viðvarandi átaka í Suður-Súdan hefur aukinn fjöldi fólks flúið yfir landamærin í suðri til Úganda undanfarna átján mánuði. Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eru yfir 950 þúsund flóttamenn frá Suður-Súdan í landinu og þar af hafa meira en 170 þúsund manns komið á þessu ári. Meirihluti flóttafólksins eru konur, börn og fólk með sérþarfir. Þá hefur þarfagreining Rauða krossins í Úganda og Alþjóðahreyfingar Rauða krossins leitt í ljós óviðunandi skilyrði er varða heilbrigðismál og hreinlæti.

Stjórnvöld í Úganda hafa tekið flóttafólki frá Suður-Súdan með opnum hug eftir að vopnuð átök ágerðust í nágrannaríkinu sumarið 2016 og veitt þeim þann stuðning sem þau eru megnug um. Hins vegar er ljóst að utanaðkomandi stuðnings er þörf. Á nýlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Kampala, höfuðborg Úganda, var sóst eftir víðtækum alþjóðlegum stuðningi vegna hins mikla fjölda flóttamanna í landinu. Niðurstöður fundarins benda því miður til þess að aðeins hafi tekist að tryggja um 25% af því fjármagni sem vonast var eftir. Daglega leita enn um 2000 manns hælis í Úganda og ljóst er að aðstæður flóttafólks munu versna til muna ef frekari alþjóðlegur stuðningur berst ekki.

Ekkert land í Afríku hýsir jafnmargt flóttafólk og Úganda og í raun eru aðeins tvö ríki í heiminum sem hýsa fleiri: Tyrkland og Pakistan.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi, var á vettvangi í Úganda fyrr á þessu ári. Hann segir aðstæður flóttafólks mjög bágar og löngu ljóst að alþjóðasamfélagið þarf að veita mun meiri stuðning svo Úganda geti raunverulega sinnt þessum mikla fjölda sem þangað leitar griða vegna vopnaðra átaka, ofsókna og voðaverka í Suður-Súdan. „Við hjá Rauða krossinum á Íslandi höfum með stuðningi utanríkisráðuneytisins þegar stutt hjálparstarf Rauða krossins í Úganda, bæði með fjárframlagi og vinnu sendifulltrúa. Rauði krossinn hefur lagt áherslu á að tryggja flóttafólki á svæðinu aðgengi að drykkjarvatni, koma upp salernis- og hreinlætisaðstöðu og auka fræðslu um mikilvægi hreinlætis. Meðal annars var handsápum dreift í flóttamannabúðum og aðgerðir hafnar til að draga úr mengun og sjúkdómum“, segir Atli.

Þá hafi Rauði krossinn þjálfað sjálfboðaliða í skyndihjálp til að að sinna flóttafólki og fylgjast grannt með útbreiðslu sjúkdóma með það að markmiði og tryggja skjót inngrip og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Þá kom Rauði krossinn á Íslandi sérstaklega að fræðslu og uppbyggingu á getu Rauða krossins í Úganda til að veita starfsfólki, sjálfboðaliðum og þolendum sálrænan stuðning. Í apríl síðastliðnum fóru þrír íslenskir sálfræðingar, með mikla reynslu af starfi á neyðarsvæðum, á vegum Rauða krossins á Íslandi til Úganda. Rauði krossinn á Íslandi hefur heitið áframhaldandi stuðningi við uppbyggingu úganska systurfélagsins á sviði sálræns stuðnings.

IMG_06481

 

„Við gerum ráð fyrir að senda fleiri sendifulltrúa á vettvang síðar á þessu ári og erum í virku samtali við kollega okkar hjá Rauða krossinum í Úganda og Alþjóðahreyfingu Rauða krossins um það hvernig við getum best orðið að liði. Úganda er eitt áhersluríkja íslenskrar þróunarsamvinnu og það væri gaman að sjá íslensk stjórnvöld styðja enn frekar við það mikilvæga hjálparstarf sem þar fer fram. Ég geri ráð fyrir að mikill meirihluti flóttafólksins vilji snúa til síns heima um leið og átökunum linnir og við leitumst við að hjálpa því að láta þann draum verða að veruleika. En til þess þarf aukinn stuðning, annars er hætt við því að fólk neyðist til að flýja aftur og þá jafnvel yfir Miðjarðarhafið til Evrópu en það ferðalag getur verið lífshættulegt og ekki eitthvað sem fólk leggur upp í að gamni sínu.“

 

Á myndunum tveimur má sjá sjálfboðaliða Rauða krossins dæla vatni upp úr ánni Níl og hreinsa áður en því er dælt á vatnsbíla sem flytja það inn í búðir til flóttafólks í Yumbe héraði.