Rauði krossinn á Íslandi bregst við neyðarástandi í Palestínu

13. nóvember 2018

Rauði krossinn á Íslandi hefur nýverið styrkt hjálparstarf Rauða hálfmánans í Palestínu og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) um 35 milljónir króna. Ástandið í Palestínu hefur versnað á árinu í kjölfar mótmæla Palestínumanna gegn hernámi Ísraela, fjölgun ólögmætra landtökubyggða á Vesturbakkanum og hraðversnandi ástands á Gaza vegna umsáturs og viðskiptabanns.

Rauði hálfmáninn í Palestínu og Alþjóðaráð Rauða krossins gáfu út neyðarbeiðnir vegna ástandsins fyrr á þessu ári. Biðlað var til landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans að bregðast við sliguðu heilbrigðiskerfi á Gaza, veita fólki sálrænan stuðning og auka öryggi og aðstoð við þolendur átaka og ofbeldis.

Frá því að mótmæli Palestínumanna á Gaza og vopnuð viðbrögð við þeim tóku að magnast í lok marsmánaðar hafa að minnsta kosti 148 Palestínumenn týnt lífi og fjöldi særðra er nú yfir 17.300 manns. Mikill fjöldi óvopnaðra mótmælenda hefur orðið fyrir skotárásum, en það hefur aukið gríðarlega þörfina fyrir sérhæfða neyðarheilbrigðisþjónustu.

Líkt og Rauði krossinn á Íslandi sinnir Rauði hálfmáninn í Palestínu rekstri sjúkrabíla og hefur Rauði krossinn á Íslandi staðið að þjálfun sjúkraflutningamanna þar. Að sögn Guðnýjar Nielsen, starfsmanns á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi, sinna palestínskir sjúkraflutningamenn starfi sínu við aðstæður sem íslenskir kollegar þeirra eiga ekki að venjast. „Þeir sinna lífsbjargandi starfi við stöðuga spennu, óöryggi vegna hættu á yfirvofandi vopnuðum átökum og eru sjálfir í lífshættu. Frá ársbyrjun hefur palestínski Rauði hálfmáninn skráð yfir 40 brot gegn neyðarheilbrigðisteymum á sjúkrabílum sínum og þar af hefur sjúkrabílum verið hindraður aðgangur 25 sinnum. Þá hafa 69 sjúkraflutningamenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans hlotið áverka við störf sín.“

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur lagt þunga áherslu á að hjálparstarfsfólk sé ekki hindrað í að sinna særðum og sjúkum. Þá hefur Alþjóðaráðið sérstaklega hvatt ísraelsk stjórnvöld til að framfylgja alþjóðlegum mannúðarlögum og virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar og taka til greina þær afleiðingar sem hinar ólögmætu landtökubyggðir hafa á daglegt líf Palestínumanna sem og Ísraela. Verði stefnu ísraelskra stjórnvalda um landtökubyggðir haldið til streitu dregur það úr von um að hægt verði að binda enda á átökin og ná varanlegum friði.Sjukra_save2

 

Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við Rauða hálfmánann í Palestínu um langt árabil með framlögum frá Mannvinum, mánaðarlegum styrktaraðilum og deildum og komið að bæði mannúðarverkefnum og þróunarverkefnum. Á þessu ári hófst langtímaþróunarverkefni í samstarfi við Rauða hálfmánann í Palestínu og Rauða krossinn í Danmörku sem lýtur að því að styrkja viðnámsþrótt íbúa Palestínu og efla ungmenni til góðra verka. Verkefninu er ætlað að skapa umhverfi sem veitir íbúum á verkefnasvæðunum öryggi. Þeim er veittur sálrænn stuðningur og börnum eru tryggð örugg svæði til leiks og samveru. Ungmenni hljóta þjálfun í lífsfærni og stuðning til að leita tækifæra til að þróa og framkvæma verkefni sem stuðla að samheldni og félagslegri þátttöku í samfélaginu.

Þú getur styrkt starf Rauða krossins í Palestínu með því að gerast Mannvinur og hjálpað okkur að styrkja sálrænan stuðning við íbúa Palestínu. Smelltu hér til að gerast Mannvinur.