• IMG_8800

Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið skrifa undir rammasamning

6. apríl 2018

 Í gærmorgun skrifuðu Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi og Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, undir rammasamning um stuðning utanríkisráðuneytisins við alþjóðlega mannúðaraðstoð Rauða krossins á Íslandi.

„Gildistaka rammasamningsins er merkilegur áfangi“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi, sem var ánægður með undirritunina á þessum sólríka degi. „Rammasamningurinn gildir til ársloka 2020 og mun klárlega auka fyrirsjáanleika í hjálparstarfi Rauða krossins, efla það og bæta skilvirkni. Okkar áherslusvæði eru aðallega Afríka og Miðausturlönd og við erum afar ánægð með að geta haldið okkar góða starfi áfram á þessum svæðum með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu og svo má bæta því við að við fögnum sömuleiðis hækkun ríkisstjórnarinnar til þróunarsamvinnumála næstu árin og vonum að haldið verði áfram á sömu braut“ segir Atli.

Rauða krossinn varð til á vígvellinum fyrir 155 árum í því tómarúmi sem þá var til staðar þegar særðir og sjúkir voru oft afskiptalausir og biðu í raun eftir að deyja því engin hjálparsamtök sinntu þörfum þeirra. Enn í dag er Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn oft eini aðilinn á átakasvæðum sem hefur aðgengi að þolendum vopnaðra átaka og í dag er nærtækast að nefna átökin í Jemen þar sem Rauði hálfmáninn í Jemen er í raun einu staðbundnu samtökin sem hafa raunverulegt og beint aðgengi að þolendum og þá í náinni samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins. Örfá alþjóðleg hjálparsamtök gera sitt besta en aðgengi að þolendum er takmarkað og erfitt. Að veita mannúðaraðstoð getur kostað þá sem hana veita lífið og sárt er að segja frá því en frá árinu 2015 hafa sjö sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Jemen verið drepnir við hjálparstörf og sömuleiðis tveir starfsmenn Alþjóðaráðsins.

Það er þó rétt að taka fram að margar alþjóðlegar hjálparstofnanir veita aðstoð sína í gegnum staðbundin samtök eins og landsfélög Rauða hálfmánans og Rauða krossins, sem án undantekninga byggjast á staðbundnum mannskap og þekkingu.

Það er bjargföst trú Rauða krossins að þessi rammasamningur muni verða til þess að bjarga mannslífum og lina þjáningar þeirra sem þjást vegna hamfara, vopnaðra átaka og annarra svipaðra aðstæðna. Hin góða samvinna milli Utanríkisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi sl. áratugi mun því halda áfram og saman munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að gera heiminn aðeins betri í dag en hann var í gær.