• Styrkhafar-innflytjendamal

Rauði krossinn hlaut tvo styrki

31. maí 2017

Félags- og jafnréttismálaráðherra úthlutaði styrkjum úr þróunarsjóði innflytjenda á dögunum. Rauði krossinn hlaut styrki til tveggja verkefna.

Þau tvö verkefni sem Rauði krossinn fékk styrki fyrir voru annars vegar námskeiðið Welcome to Iceland, en markmið námskeiðsins er annars vegar að veita flóttafólki mikilvægar hagnýtar upplýsingar um ýmislegt sem varðar íslenskt samfélag og hins vegar að stuðla að gagnkvæmri aðlögun flóttafólks og Íslendinga hér á landi. Brýnt er að bjóða nýjum íbúum landsins upp á fræðslu þar sem farið er yfir ýmis einkenni og grundvallaratriði íslensks samfélags, til þess að koma í veg fyrir einangrun einstaklinga og stuðla að því að allir eigi sem bestan kost á því að verða ánægðir og virkir borgarar þessa lands. Námskeiðið er á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem sótti um styrkinn.

Hitt verkefnið er þýðing og staðfæring á handbókinni; Give us some time. Supporting resettled refugees with psychosocial impairments.

Handbókin sem gefin er út af Dutch Council for Refugees og unnin í samvinnu við Pharos Centre of Expertise on Health Disparities verður þýdd og staðfærð. Handbókinni er ætlað að vera vinnugagn fyrir þjónustuaðila sem vinna í beinu starfi með flóttafólki og nýtist jafnt starfsfólki sveitarfélaga, skóla, heilbrigðisþjónustu og félagasamtaka. 

Þróunarsjóði innflytjenda er ætlað að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Þorsetinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra úthlutaði styrkjunum í Hannesarholti nú á dögunum en alls voru 15 verkefni sem hlutu styrki.