Rauði krossinn telur ekki forsvaranlegt að senda flóttafólk til Grikklands

7. maí 2021

Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn á Íslandi þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður. Sú afstaða Rauða krossins byggir á fjölmörgum frásögnum skjólstæðinga félagsins sem hafa leitað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi eftir að hafa verið veitt vernd í Grikklandi auk þess sem áreiðanlegar heimildir, þ.m.t. fréttaflutningur og skýrslur alþjóðlegra hjálpar- og mannúðarsamtaka, skjóta enn styrkari stoðum undir afstöðu félagsins. Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra sem og í opinberri umræðu.

Vorið 2020 tók Útlendingastofnun þá rökréttu og skynsamlegu ákvörðun að falla frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands á grundvelli aðstæðna og óvissu vegna heimsfaraldurs kórónaveiru en fyrir voru efnahagslegar og félagslegar aðstæður í landinu slæmar, sérstaklega fyrir flóttafólk. Í kjölfarið tók stofnunin svo ákvörðun um að taka umsóknir einstaklinga og fjölskyldna með alþjóðlega vernd í Grikklandi til efnismeðferðar og hið sama gerði kærunefnd útlendingamála.

Það er mat Rauða krossins að þær aðstæður sem horft var til á vormánuðum 2020 hafi ekki batnað, nema síður sé. Flóttafólk mætir mikilli mismunun auk þess sem margvíslegar hindranir standa í vegi fyrir lögbundnum réttindum til félagslegrar aðstoðar, heilbrigðisþjónustu og aðgengis að húsnæðis- og atvinnumarkaði auk þess sem grísk stjórnvöld hafa haldið áfram harkalegum aðgerðum á landamærunum. Þá hafa neikvæð áhrif kórónuveirunnar aukist til muna og fyrirséð að langtímaáhrif faraldursins á efnahag og innviði Grikklands verða alvarleg.

Að teknu tilliti til alls þessa hvetur Rauði krossinn á Íslandi íslensk stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum endursendingum til Grikklands.