• Thorunn-med-systkinum_Mosul17
  • Thorunn_RDU_skurdstofuteymid_Mosul_Irak17
  • Thorunn_RDU_skurdstofuteymid_Mosul_Irak17
  • Thorun_skytturnar-thrjar_Mosul-2017

Saga frá sendifulltrúa í Mósúl í Írak

24. maí 2017

Sendifulltrúinn Þórunn Hreggviðsdóttir er stödd í Mósúl í Írak þar sem hún starfar á sjúkrahúsi ásamt skurðteymi frá Alþjóðaráði Rauða krossins og finnska Rauða krossins. Hún sendi fjölskyldu sinni og vinum tölvupóst um upplifun sína og aðstæður sem við fengum leyfi til að birta auk stuttrar sögu af „skyttunum þremur“.

Ágæta fjölskylda og vinir,

Nú fer þessari ferð minni á stríðssvæði að ljúka. Þetta hefur verið ákaflega upplýsandi og gefandi tími. Í stuttu máli stríð er hryllingur  og bitnar alltaf á þeim sem síst skyldi.

En af mér er allt gott að frétta, aðbúnaður eins og best verður á kosið, hvert teymi fyrir sig (skurðlæknir, bráðalæknir, svæfingalæknir, deildarhjúkrunarfræðingur og skurðstofuhjúkrunarfræðingur) býr saman í húsum með heitu og köldu vatni, rafmagni (oftast) og interneti. Ég hef verið sérstaklega heppin með samstarfsmenn og sambýlinga, veit t.d. mun meira um hefðir og siði Japana en áður, kynntist vegan mataræði sem er snilld, og lærði að dansa salsa uppá bólivíska vísu. Svo eldum við saman á kvöldin.

Lífið utan spítalavinnu er samt frekar tilbreytingarlítið, hverfið sem við búum í er víggirt og aðeins ein aðkoma og ein útleið, vaktað af þungvopnuðum mönnum svo ekkert komi upp á.

Thorunn_RDU_skurdstofuteymid_Mosul_Irak17

Herflugvélar og Apachi þyrlur fylla himininn og færa okkur sundursprengt fólk. Við fáum þó að fara um hverfið eins og okkur lystir, getum farið út að borða og keypt í matinn, farið í stóran garð og gengið eða hlaupið á hlaupabrautum. Allt utan hverfiins þarf að fara í hópum með sérstöku leyfi.

Reynt er að koma til móts við félagsþarfir með því að fara saman í Hammam nú eða upp í fjöll, út i náttúruna og í fyrradag var okkur boðið að fara og skoða Shanidar hellinn sem er heimsfrægur, en ég hafði ekki hugmynd um tilveru hans fyrr en núna. Svona geta nú ferðalög auðgað mann og upplýst.

Ekki þar fyrir að eftir geðveiki vinnunnar er gott að vera í friði og ró og lesa sér til um land og þjóð. Og viti menn, ekki bara eru Efrat og Tigris hér að sullast og auðvitað Edengarðurinn og Babelsturninn, það vissi ég svo sem enda vagga siðmenningar okkar hér. Hitt vissi ég ekki (enda hjúkka en ekki sagnfræðingur) að Alexander og vinur minn Daríus háðu sína stæstu orrustu hér handan við hornið, Gaugamela orrustuna víðfrægu.

En þegar upp er staðið og við að ljúka þessu starfi þá situr eftir góð tilfinning, eitthvað gat ég lagt af mörkum í þessum hildarleik, börn sem áttu ekki lífsvon hlaupa nú hlæjandi um spítalaganga, mæður og dætur þakka okkur á óskiljanlegu tungumáli, samstarfsmenn frá öllum hornum veraldar taka höndum saman og vinna þarft starf, já gott ef ég er ekki bara ánægð með sjálfa mig og vil gera meira.

Bestu kveðjur, Tóta

 

Skytturnar þrjár

 Þessi systkini komu stórslösuð frá Mósúl fyrir 6 vikum. Ahmed, sá yngsti, sagði ekki orð í 10 daga, illa skaðaður og brotinn. Stúlkan, Wafa, fékk mikið höfuðhögg og var óttast um að hún yrði aldrei söm, hún talaði heldur ekkert lengi, var fjarræn og sljó. Mohamed 8 ára var með sár eftir sprengjuflísar og fyrstur til að ná bata og hefur verið vakandi og sofandi yfir systkinum sínum sem nú hlaupa hlæjandi um alla ganga.

Lífið er gott.

Thorun_skytturnar-thrjar_Mosul-2017_nota

Skytturnar þrjár.