• 26981978_10156037194213851_343919865_o

Samkomulag undirritað

Samkomulag við Reykjavíkurborg um rekstur Vinjar til þriggja ára

17. janúar 2018

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Árni Gunnarsson formaður Rauða krossins í Reykjavík skrifuðu í dag undir samkomulag um rekstur Vinjar, athvarfs og bataseturs fyrir fólk með geðraskanir. Með samningnum er rekstur þessa mikilvæga athvarfs tryggður til næstu þriggja ára.

Á hverjum degi koma um 40 manns í Vin, sem margir líta á sem sitt annað heimili. Gestir, starfsmenn og sjálfboðaliðar halda sameiginlega úti öflugu félagsstarfi, meðal annars með reglulegum skákmótum og ferðafélagi. 

Gestir hafa rómað þann heimilislega anda sem ríkir í athvarfinu, sem er við Hverfisgötu í Reykjavík. Eitt meginmarkmið Vinjar er að fólk með geðraskanir eigi þar kost á samveru, fræðslu og bataúrræðum og draga þannig meðal annars úr endurinnlögnum á geðdeild.

Vin hefur verið rekin undir merkjum Rauða krossins í aldarfjórðung og verður haldið upp á 25 ára afmæli athvarfsins 8. febrúar næstkomandi.