• Samstarf

Samstarf íslenska og grænlenska Rauða krossins

12. júní 2017

Samstarf Rauða krossins á Íslandi við Grænlenska Rauða krossinn er nú komið á fullt skrið. Stjórn Rauða krossins á Íslandi ákvað á 90 ára afmæli félagsins að stórefla samstarfið við þessa næstu nágranna okkar í vestri.  

Grænlenski Rauði krossinn er lítið en öflugt landsfélag. Félagið var stofnað árið 1992 að undangengnum verkefnum á þágu íbúanna sem Danski Rauði krossinn styrkti.  Félagið heldur úti starfsemi í alls sex byggðum. Flestar þeirra á vesturströndinni en í vetur var stofnuð ný deild í Tasiilaq, sú fyrsta á Austur-Grænlandi. Landfræðilegar aðstæður eru erfiðar, þörfin fyrir félagslega aðstoð er mikil og sífellt verið að þróa verkefni félagsins. 

Samstarf félaganna tveggja snýst í stórum dráttum um að skiptast á reynslu við rekstur félagslegra verkefna, s.s. við uppbyggingu ungmennastarfs og að styðja við þarfagreiningu fyrir félagsleg verkefni á Grænlandi.

Félagsleg vandamál ungmenna eru víða á Grænlandi, mörg börn flosna upp úr skóla og hafa lítið fyrir stafni. Einn starfsmaður í fullu starfi stýrir starfinu sem miðar að því að byggja upp öflugan hóp af vel þjálfuðum ungum sjálfboðaliðum í deildum Rauða krossins á Grænlandi. Þessir sjálfboðaliðar munu hljóta kennslu og þjálfun svo þeir geti á skipulagðan hátt náð til berskjaldaðra ungmenna sem standa höllum fæti, rofið einangrun þeirra, veitt þeim sálrænan stuðning og virkt til þátttöku uppbyggilegu félagsstarfi, leikjum og fræðslu.

Grænlenska landsfélagið hefur ekki áður gert landskönnun á því hvar skóinn kreppir meðal íbúa landsins. Þau heyrðu af „hvar þrengir að?“ könnunum Rauða krossins á Íslandi sem gerðar eru á um fimm ára fresti og vildu læra af reynslunni héðan og þeirri aðferðafræði sem notuð hefur verið.

Grænlenski Rauði krossinn hefur samið við háskólann í Nuuk um samvinnu við gerð könnunarinnar og skipað starfshóp sem fylgir henni eftir. Það er ánægjulegt að segja frá því að samstarf landsfélaganna tveggja hefur einnig leitt af sér nýjar hugmyndir um það hvernig við þróum framkvæmd okkar könnunar hér á landi.

Fyrsti vinnufundur um þarfagreininguna var haldinn nýlega og við það tækifæri færði Rauði krossinn á Íslandi þeim grænlenska bókina Andlit norðursins, sem var höfðingleg gjöf frá útgáfunni Crymogeu.  Á myndinni má sjá, frá vinstri, þær Lissi Olsen sem stýrir starfshópnum, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi og Christinu Tönder Bell formann Grænlenska Rauða krossins dást að bókinni góðu. 

Air Iceland Connect styður samstarfið með myndarlegum hætti og gerir samskiptin mun skilvirkari en ella.

595-air-iceland-connect_logo_CMYK_blue