• 1545666_752492434881657_1824449778907731525_n

Samstarf við Rauða krossinn í Grænlandi

9. febrúar 2016

Rauði krossinn á Íslandi og Rauði krossinn á Grænlandi hafa undirritað samstarfssamning til næstu þriggja ára um uppbyggingu ungmenna- og sjálfboðastarfs í Nuuk, Fiskenæsset, Ilulissat, Sisimiut og Aasiaat á vesturströnd Grænlands.

Rauði krossinn á Íslandi veitir systurfélagi sínu á Grænlandi stuðning í formi fjármagns og ráðgjafar. Áhersla verður lögð á mynda öflugan hóp af vel þjálfuðum ungum sjálfboðaliðum á Grænlandi sem munu vinna skipulega að því að ná til berskjaldaðra ungmenna, rjúfa einangrun þeirra, veita þeim sálrænan stuðning og virkja með skipulögðu ungliðastarfi.

Verkefnið er hluti af samstarfi landsfélaganna tveggja sem miðar að því að efla starf að mannúðamálum með sérstakri áherslu á ungmenni og þá sem standa höllum fæti.

Flugfélag Íslands styður við Rauða krossinn í báðum löndum með því að láta Rauða krossinum í té fimmtán ferðir á milli Íslands og Grænlands til ársloka 2016. Tilgangurinn er að liðka fyrir samskiptum milli Rauða kross félaganna tveggja.