Sáttmáli um bann við kjarnorkuvopnum undirritaður

20. september 2017

Sáttmáli um bann við kjarnorkuvopnum var lagður fram til undirritunar í dag, þann 20. september, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. 

Peter Maurer, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins óskaði stjórnmálaleiðtogum til hamingju með að hafa tekið skref í átt að því að eyða einni mestu ógn sem steðjar að mannkyni öllu með því að skrifa undir sáttmálann um bann við kjarnorkuvopnum. 

Fleiri en 120 ríki samþykktu sáttmálann í júlí sl., 42 ríki hafa skrifað undir hann og þrjú ríki hafa fullgilt sáttmálann, en árið 2011 kallaði Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans eftir því að öll ríki heims gerðu með sér lagalega bindandi samkomulag, á grundvelli núgildandi alþjóðlegra skuldbindinga og samþykkta, um algjört bann við notkun kjarnorkuvopna sem tryggja skuli eyðingu og afnám þeirra. 

Sáttmálinn um bann við kjarnorkuvopnum er viðeigandi svar við ákalli Rauða kross hreyfingarinnar og viðurkenning á þeim skelfilegu mannlegu hörmungum sem kjarnorkuvopn hafa í för með sér og þeirri hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist þeirra. Sáttmálinn leggur fram skýrt bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga. Í sáttmálanum er jafnframt að finna leiðir til samþykktar fyrir öll ríki, þ.m.t. kjarnorkuríki. Sáttmálinn felur einnig í sér skuldbindingar ríkja til að koma fórnarlömbum kjarnorkunotkunar og kjarnorkutilrauna til aðstoðar og koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis. Bann og útrýming kjarnorkuvopna er mikilvæg ákvörðun sem tekin er á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Slík ákvörðun felur jafnframt í sér loforð þess efnis að komandi kynslóðir muni aldrei þurfa að lifa við þá ógn sem stafar af kjarnorkuvopnum.

Með því að gerast aðili að ofangreindum sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum er Ísland að taka mikilvægt skref í átt að alheimsmarkmiði um heim án kjarnorkuvopna. Rauði krossinn á Íslandi hvetur yfirvöld til þess að gerast aðilar að ofangreindum sáttmála og taka þannig mikilvægt skref í átt að alheimsmarkmiði um heim án kjarnorkuvopna.