Sendifulltrúar í Úganda

2. september 2017

 Sálfræðingarnir og sendifulltrúarnir Jóhann Thoroddsen og Elín Jónasdóttir eru stödd í Úganda þar sem þau þjálfa sjálfboðaliða og starfsfólk Rauða krossins í Úganda í sálrænum stuðningi og að bregðast við áföllum, en mikill fjöldi flóttamanna hefur leitað skjóls í Úganda sl. mánuði. Þau hafa lagt áherslu á kynjajafnrétti í fræðslu sinni og hvernig eigi að mæta fólki sem orðið hefur fyrir kynferðislegri áreitni.

Þau fóru til Úganda í apríl sl. og eru nú að fylgja þeirri ferð eftir, kanna hvernig áætlanir hafa gengið eftir auk þess hvað megi betur fara. Leiðbeinendur sem þau hafa hitt undanfarið höfðu allir þá sögu að segja að námskeiðið sem þau héldu í maí sl. hefði styrkt þau sem manneskjur og sjálfboðaliða og gert þeim auðveldara með að mæta flóttafólkinu og takast á við þær erfiðu áskoranir sem því fylgja. Jóhann segir þau Elínu „hafa verið eins og stolta foreldra þegar sjálfboðaliðarnir voru að segja frá, því þau voru svo flott og við sáum að þetta hafði breytt þeim.“

 

Með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina hefur Rauði krossinn á Íslandi styrkt Rauða krossinn í Úganda við að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna í samvinnu við stjórnvöld og aðra aðila. 

Takk fyrir ykkar stuðning Utanríkisráðuneytið og Mannvinir.