• Ruth-Sigurdardottir

Sendifulltrúi í Bangladess

6. apríl 2018

Ruth Sigurðardóttir, skurðhjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi er stödd í Cox´s Bazar í Bangladess þar sem hún starfar á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins. Ruth starfar á skurðstofu á Landspítalanum Fossvogi allajafna en mun dvelja um mánuð í Bangladess við störf. Þetta er önnur sendiför Ruthar en hún fór til starfa á tjaldsjúkrahúsi í Haití eftir stóran jarðskjálfta þar í landi árið 2010. Ruth er nítjándi sendifulltrúinn sem Rauði krossinn á Íslandi sendir til Bangladess frá því tjaldsjúkrahúsið var opnað í september.

Anna Bryndís Hendriksdóttir, verkefnastjóri í sendifulltrúamálum hjá Rauða krossinum á Íslandi fór til Cox´s Bazar í byrjun árs og segir aðstæður afar erfiðar á svæðinu, ekki síst núna þegar monsún regntímabilið fer í hönd. „Mikill aur verður á svæðinu með rigningunni og búist er við aurskriðum og flóðum, auk þess sem hvirfilbyljir geta gert mikinn óskunda. Þetta getur ekki aðeins haft áhrif á búðirnar sem fólk viðhefst í heldur einnig aðstæður á tjaldsjúkrahúsinu sem komið var upp í september sl. og fjölmargir íslenskir sendifulltrúar hafa farið til starfa á“ segir Anna Bryndís. Neyðarsjúkrahúsum er almennt aðeins ætlað að vera starfrækt í 3 til 6 mánuði en ákvörðun hefur verið tekin um að tjaldsjúkrahúsið í Cox´s Bazar verði starfrækt a.m.k. út árið 2018.

Rauði krossinn á Íslandi er stoltur af framlagi sínu vegna ástandsins, en rúmlega 600.000 manns hafa flúið heimkynni sín í Mjanmar yfir landamærin til Bangladess og aðhafast nú í búðum þar í landi. Neyðarsöfnun vegna ástandsins stendur enn yfir og er hægt að styrkja hana með því að senda sms-ið TAKK í 1900 en þá eru 1900 krónur dregnar af símreikningi. Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. Þá væru ferðir sendifulltrúa ekki möguleiki nema með aðstoð mánaðarlegs framlags Mannvina Rauða krossins.