• Halldor-Gislason-DDI-Tanzania-2017

Sendifulltrúi í Tansaníu og Búrúndí

22. júní 2017

Halldór Gíslason tölvunar- og viðskiptafræðingur og sendifulltrúi er nýkominn heim frá Tansaníu og Búrúndí þar sem hann aðstoðaði þarlend landsfélög við uppbygginu á sviði upplýsingatæknimála. Í því felst m.a. að koma upp hagnýtum tölvukerfum og áreiðanlegri internettengingu, en slíkt er afar mikilvægt í nútímasamfélögum eins og við þekkjum vel. Þá eru útvarpstæki, fjármálakerfi og hin ýmsu samskiptatól s.s. samfélagsmiðar og vefsíður einnig til skoðunar, enda mikilvægt að landsfélögin, starfsmenn og sjálfboðaliðar geti átt góð samskipti sín á milli og við aðra. Fyrr á þessu ári fór Halldór einnig til Malaví í sama tilgangi.

IFRC-Nairobi_Halldor_David_Louis_Dorobin-20170608Halldór er hér lengst til vinstri ásamt samstarfsmönnum sínum þeim David, Louis og Dorobin.

Verkefni Halldórs eru hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni Rauða krossins á Íslandi og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans Digital Divide Initiative og miðar að því að brúa hið stafræna bil sem landsfélög Rauða kross hreyfingarinnar standa frammi fyrir. Rauði krossinn á Íslandi hefur einsett sér að taka þátt í þessu verkefni í fátækustu löndum Afríku og nýtur til þess dyggs stuðnings utanríkisráðuneytisins og Hjálparhandar Íslandsbanka, en Halldór er einmitt starfsmaður bankans. Íslandsbanki hefur lagt ríka áherslu á að leggja samfélaginu lið með þátttöku starfsfólks bankans í verkefnum sem horfa til heilla í samfélaginu.

Prosper,-Louis---Burundi-20170612_094039Hér sjást samstarfsmennirnir Prosper og Louis að störfum í Búrúndí.

 

Halldór fann fyrir miklum krafti og vilja hjá landsfélögunum til að efla sig og styrkja og ljóst að þau munu vaxa og dafna á næstu árum. Munurinn á Búrúndí og Tansaníu er þónokkur, til dæmis er Tansanía mun strjálbýlli en Búrúndí en um 11 milljón manns búa í Búrúndí en aðeins um hálf milljón landsmanna búa í höfuðborginni. Í Tansaníu sögðu allir „caribou“ alls staðar, en það þýðir velkomin á svahílí og voru móttökurnar afar góðar hvert sem komið var. Þá kom frönskukunnátta Halldórs úr menntaskóla sér vel í Búrúndí, en hann kom sjálfum sér á óvart hversu mikið hann skildi og kunni. Þessi ferð var önnur sendifulltrúaferð Halldórs, en eins og hann segir sjálfur þá hefur hann alltaf viljað gera eitthvað gott, eins væmið og það hljómar. Með því að gerast sendifulltrúi getur hann bæði látið gott af sér leiða og kynnst öðrum menningarheimum en hann áætlar að sendifulltrúaferðirnar verði fleiri á næstu mánuðum, Líbería og Sambía eru næst á dagskrá þar sem hið stafræna bil verður vonandi brúað sem mest.

Tveir-starfsmenn-Belgiska-Rauda-Krossins,-Starfsmadur-CRB,-Louis---Burundi-20170613_163949Hér eru tveir starfsmenn belgíska Rauða krossins, starfsmaður búrúndíska Rauða krossins og Louis, helsta samstarfsmann Halldórs í verkefninu.

Burundi---Lagerinn-2-20170613_164256_HDRVerið var að fylla á lager í Búrúndí með ýmsum matarpökkum frá Rauða krossinum.