Sendifulltrúi til aðstoðar eftir Irmu

21. september 2017

Sólrún María Ólafsdóttir sendifulltrúi og starfsmaður Rauða krossins á Íslandi er á leið í Karabíska hafið þar sem hún mun starfa í svokölluðu FACT neyðarteymi (Field Assessment Coordination Team) á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem er nú að störfum á eyjunum sem verst urðu úti vegna fellibyljarins Irmu. Þá verður hún einnig í stuðningi við þær eyjar sem nú búa sig undir komu fellibyljarins Maríu. Sólrún María mun sinna svokallaðri PMER stöðu (Planning, Monitoring, Evaluation and Reporting position) og verður starfsstöð hennar í Trinídad & Tóbagó.

 Sólrún María er með mannfræði- og stjórnmálafræðimenntun auk mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum með áherslu á þróunarsamvinnu. Hún starfaði lengi í Palestínu fyrir UNICEF og í Malaví bæði fyrir Þróunarmálastofnun SÞ og sendiráð Noregs í landinu. Þetta er fyrsta sendifulltrúaferð hennar fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi en frá því í janúar 2017 hefur hún sinnt starfi verkefnastjóra á landsskrifstofu Rauða krossins á Íslandi. 

Að sögn Kristínar S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins verður ferð Sólrúnar að öllum líkindum fimm til sex vikur. „Sólrún er gríðarlega reynslumikil þegar kemur að mati á aðstæðum og skipulagningu hjálparstarfs á vettvangi“ segir Kristín. „Rauði krossinn á Íslandi er þess fullviss að starfskraftar hennar verði fullnýttir í þágu þeirra sem standa höllum fæti í kjölfar þessara veðurhamfara.“