Sex starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins myrtir

Enn er óljóst um afdrif tveggja annarra starfsmanna

8. febrúar 2017

Sex starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) voru myrtir í Afganistan í dag og enn er óljóst um afdrif tveggja annarra starfsmanna. Ekki er vitað hverjir stóðu að ódæðisverkinu, en starfsmennirnir voru í Jawzan héraði þegar árásin var gerð.


Peter Maurer, yfirmaður Alþjóðaráðs Rauða krossins harmar þennan atburð sem sé einstaklega sorglegur. „Þessir starfsmenn voru aðeins að sinna skyldum sínum og vinna óeigingjarnt starf til þess að hjálpa og koma aðstoð til íbúa á svæðinu. Hugsanir okkar eru hjá fjölskyldum og ástvinum samstarfsfólks okkar sem voru myrtir og þeirra sem enn er saknað.“


Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við verkefni Alþjóðaráðsins í Afganistan um nokkurra ára skeið og meðal annars sent sendifulltrúa á vettvang. Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi var mjög brugðið við fregnirnar. „Þetta er hræðilegur atburður, alþjóðahreyfing Rauða krossins hefur verið á vettvangi í Afganistan í yfir þrjátíu ár og veitt þar fórnarlömbum átaka og hamfara margvíslega mannúðarastoð. Meðal annars hefur Rauði krossinn aðstoðað börn og fullorðna sem misst hafa útlimi af völdum átaka. Svona atburðir koma við okkur öll“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir. 


Einn sendifulltrúi frá Íslandi er nú starfandi hjá Alþjóðaráði Rauða krossins í Afganistan og er hann óhultur.