• Sigurjon-og-Gudbjorg1

Sextándi sendifulltrúinn á leið út

19. desember 2017

Svæfingalæknirinn og sendifulltrúinn Sigurjón Örn Stefánsson hélt til Bangladess nú um helgina. Hann mun verja jólum og áramótum við störf á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar þar sem yfir 600.000 manns frá Mjanmar dvelja nú. Þá fer Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi út milli jóla og nýárs til starfa á sjúkrahúsinu.

Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið að störfum síðan í október á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Hólmfríður hefur ekki starfað á sjúkrahúsinu líkt og aðrir sendifulltrúar Rauða krossins, heldur unnið að verkefni til lengri tíma sem felst í að aðstoða Rauða hálfmánann í Bangladess við að byggja upp getu til þess að mæta þörfum fólks í búðunum. Teymið hennar hittir um 400 sjúklinga daglega og meðhöndla allt frá sýkingum, kvefi og hita og niðurgangi yfir í alvarlegri áverka en fólk er flutt á nærliggjandi sjúkrahús ef þörf er á.

Samtals munu 16 íslenskir sendifulltrúar hafa verið að störfum á vegum Rauða krossins á Íslandi síðan í september í Bangladess og ljóst að gríðarleg þörf er á utanaðkomandi aðstoð. Vegna þessa hefur Rauði krossinn verið með neyðarsöfnun í gangi og getur almenningur þannig lagt hönd á plóg. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda sms-ið TAKK í 1900 og 1900 krónur eru dregnar af símreikningi. Hvert framlag getur skipt sköpum fyrir fólk í þessum erfiðu aðstæðum.

„Nú þegar hefur almenningur lagt söfnuninni myndarlega lið auk þess sem nokkrar af deildum Rauða krossins um landið allt hafa lagt sitt af mörkum. Þannig hafa Eyjafjarðar-, Húnavatnssýslu-,  Héraðs- og Borgarfjarðar- og Hafnarfjarðar- og Garðabæjar deild hver ánafnað einni milljón króna til söfnunarinnar. Þá hafa Akranesdeild og Stöðvarfjarðardeild einnig lagt söfnuninni lið svo fjárframlög hafa komið hvaðanæva að. Þetta er afar mikilvægt fyrir skjólstæðinga Rauða krossins sem margir hverjir eru aðframkomnir eftir flótta frá heimkynnum sínum“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Hofi_Mynd-ICRC

Hólmfríður Garðarsdóttir að störfum. Mynd ICRC.

Sigurjon-a-Keflavikurflugvelli

Hér má sjá Sigurjón fyrir brottför á Keflavíkurflugvelli.