Skyndihjálparmaður ársins 2020

Rauði krossinn útnefnir árlega Skyndihjálparmann ársins

11. febrúar 2021

Sólveig Ásgeirsdóttir er Skyndihjálparmaður ársins 2020.

Sólveig Ásgeirsdóttir, 27 ára, bjargaði lífi bestu vinkonu sinnar, Súsönnu Helgadóttur, 28 ára, í júlí síðastliðnum þegar Súsanna fór í skyndilegt hjartastopp á heimili sínu. Tveggja ára sonur Súsönnu lá sofandi í herbergi sínu þegar atvikið átti sér stað.

Sólveig var í heimsókn hjá Súsönnu eitt sumarkvöld í júlí eins og svo oft áður. Þær vinkonur sátu að spjalli þegar Súsanna missti skyndilega meðvitund. Sólveig var fljót að átta sig á að eitthvað alvarlegt amaði að vinkonu sinni og hringdi strax í 112. Á þessum tímapunkti var Súsanna ekki með púls, hætt að anda og orðin blá í framan. Með aðstoð neyðarvarðar 112 hóf Sólveig endurlífgun og hnoðaði Súsönnu og blés þangað til sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Í kjölfarið dvaldi hún á spítala í tvær vikur.


Sólveig segist þakklát fyrir að hafa verið stödd hjá vinkonu sinni þetta kvöld og segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst hefði hún ekki verið á staðnum. Hún er enn fremur þakklát fyrir að hafa nýlega lokið skyndihjálparnámskeiði þegar atvikið átti sér stað en það veitti henni öryggi í afar krefjandi aðstæðum.

Í ljós kom að Súsanna var með leyndan hjartagalla en hefur í dag náð ótrúlegum bata. Í dag er hún með bjargráð og hefur lokið endurhæfingu.

Árlega óskar Rauði krossinn eftir tilnefningum til Skyndihjálparmanns ársins í tengslum við 112 daginn. Tilgangur þess er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.

Sérstök valnefnd fer yfir þær ábendingar sem berast og útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Í nefndinni eru fulltrúar frá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Í umsögn valnefndar segir:

Sólveig sýndi snarræði á neyðarstundu og þessi atburður sýnir okkur að alvarlegir atburðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er getur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga meðborgurum sínum, jafnvel á rólegu kvöldi heima hjá góðum vini. Sem betur fer er sjaldgæft að jafn ungt fólk og Súsanna fari í hjartastopp án nokkurs fyrirvara en saga þeirra Sólveigar á erindi við okkur öll, enda gerist hún í aðstæðum sem flestir geta tengt við. Snarræði Sólveigar bjargaði lífi ungrar móður sem átti sér einskis ills von. Sólveig á svo sannarlega skilið að vera sæmd titlinum Skyndihjálparmaður ársins.

Rauði krossinn hvetur alla til að fara á skyndihjálparnámskeið. Fjöldi námskeiða er í boði auk þess sem hægt er að taka ókeypis vefnámskeið í skyndihjálp auk verklegra námskeiða.

Nova gaf Sólveigu nýjasta Samsung-símann en auk þess fékk hún gjafabréf á 12 tíma skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum fyrir tvo.

Hafðu samband við Rauða krossinn á þínu svæði fyrir nánari upplýsingar um námskeiðahald.
Næstu námskeið á höfuðborgarsvæðinu:

Skyndihjálp 4, 8 og 12 klukkustundir

 • Skyndihjálp 12 klst., 13. og 14. febrúar, Reykjavík - Skráning
 • Skyndihjálp 8 klst., 6. og 7. mars, Reykjavík - Skráning
 • Skyndihjálp 4 klst., 15. mars, Hafnarfirði - Skráning

 • First Aid 4 hours (english), 22. mars, Hafnarfjörður - Skráning

Slys og veikindi barna:

 • 16. febrúar, Kópavogi (FULLT)
 • 23. febrúar, Kópavogi - Skráning
 • 25. febrúar, á ensku (FULLT)
 • 3. mars, Hafnafirði - Skráning
 • 9. mars, Kópavogi - Skráning
 • 16. mars, Kópavogi - Skráning
 • 23. mars, Kópavogi - Skráning

Fleiri námskeið og upplýsingar má finna á skyndihjalp.is