• Italia

Söfnum fyrir flóttafólki í sjávarháska

Rauði krossinn styður björgunaraðgerðir í Miðjarðarhafi

10. ágúst 2016

Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2016 hafa um þrjú þúsund flóttamenn drukknað á leið sinni til Ítalíu frá Norður-Afríku. Neyðarkall barst frá ítalska Rauða krossinum og Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans fyrr í sumar vegna mikillar umferðar flóttafólks sem freistar þess nú í auknum mæli að komast sjóleiðina frá Norður-Afríku til Ítalíu eftir að landamærum Makedóníu til Evrópu var lokað. Fjöldi fólks leggur sig í mikla hættu og líkur á sjóskaða eru mun meiri á þessum slóðum Miðjarðarhafsins. Straumþunginn er mikill og mun meiri en þekkist austar á Miðjarðarhafinu og hættan því þeim mun meiri.

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að veita 100 þúsund svissneskum frönkum, eða um 12,3 milljónum króna, til björgunaraðgerða ítalska Rauða krossins á Miðjarðarhafi. Um leið verður opnað fyrir neyðarsöfnun meðal almennings á Íslandi sem getur þar með stutt við björgunaraðgerðir á sjó. Undirbúningur er einnig hafinn fyrir sendifulltrúa en búist er við að íslenskur hjúkrunarfræðingur komi að björgunarstarfinu á næstu vikum á vegum Rauða krossins á Íslandi.

Aðgerðaráætlun ítalska Rauða krossins gerir ráð fyrir stöðugri vöktun dróna á stórum svæðum auk þess sem gerð hafa verið út björgunarskip. Annað þeirra, Phoenix, hefur verið á vaktinni í allt sumar og nú bætist við annað skipið, Responder. Skipin eru gerð út með aðstoð samtakanna MOAS (Migrant Offshore Aid Station Foundation). Responder hóf störf þann 9. ágúst og á fyrsta starfsdegi skipsins tókst að bjarga flóttafólki á fjórum bátum, alls 327 manns, en þar á meðal voru 19 fylgdarlaus börn.

Talið er að aðgerðirnar í heild sinni nái til að minnsta kosti 160 þúsund flóttamanna en í aðstoðinni felast ekki aðeins björgunaraðgerðir fyrir fólk í hættu heldur einnig dreifing hjálpargagna. Þar á meðal er drykkjarvatn, matur, hlýr fatnaður, teppi, hreinlætisvörur og síðast en ekki síst aðgangur að heilbrigðisþjónustu og sálrænum stuðningi.

Opnað hefur verið fyrir söfnunarnúmer Rauða krossins en þau eru:

904 1500 fyrir 1500 króna framlag

904 2500 fyrir 2500 króna framlag

904 5500 fyrir 5500 króna framlag

Einnig er hægt að leggja inn á reikning: 0342-26-12, kt. 530269-2649.