Starf Rauða krossins yfir hátíðarnar

22. desember 2017

Sjálfboðaliðar Rauða krossins halda áfram að vinna ómetanlegt starf í þágu samfélagsins yfir hátíðarnar sem alla aðra daga.

Nú þegar hefur fjöldi skjólstæðinga Rauða krossins um allt land fengið úthlutað mat og öðrum nauðsynjum fyrir jólin. Mörg úrræða Rauða krossins halda áfram að vera opin yfir hátíðarnar. Þannig verður Konukot næturathvarf fyrir heimilislausar konur opið frá kl. 14 á aðfangadag og allan jóladag. Hefðbundnir opnunartímar, milli kl. 17 og 10, verða á annan í jólum og milli jóla og nýárs en þann 31. desember opnar kl. 14 og opið verður allan nýársdag.

Frú Ragnheiður verður á ferðinni með hefðbundnum hætti frá kl. 18 – 21 alla daga nema aðfangadag og gamlársdag. Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eru margir hverjir heimilislausir og fá jólapakka auk heilbrigðisaðstoðar eins og venjulega.

Vin, athvarf Rauða krossins í Reykjavík fyrir fólk með geðraskanir, verður lokað yfir hátíðarnar en opnar aftur 26. desember milli kl. 14 og 17. Þá er Lækur í Hafnarfirði einnig opinn milli jóla og nýárs.

Hjálparsíminn 1717 og netspjallið verða opin allan sólarhringinn eins og þau eru allan ársins hring. Það sem af er ári hafa símtöl og spjöll verið yfir 14.200 svo ljóst er að þjónustan er afar þörf.

Sendifulltrúar að störfum á vettvangi yfir jólin eru þrír, þau Sigurjón Örn Stefánsson og Guðbjörg Sveinsdóttir sem eru stödd í Bangladess að störfum á tjaldsjúkrahúsi í flóttamannabúðum auk Elínar Oddsdóttur sem er að störfum í Jemen.

Á Þorláksmessu bjóða sjálfboðaliðar upp á rjúkandi heitt kakó í miðbæ Reykjavíkur og í jólaþorpinu í Hafnarfirði en frjáls framlög eru vel þegin.

Sem fyrr eru neyðarvarnarhópar Rauða krossins til taks en það sem af er ári hafa þeir farið í um hundrað útköll vegna ýmissa atvika s.s. opnun fjöldahjálparstöðva í fárviðrum og eftir slys, veitt sálrænan stuðning til þolenda slysa og áfalla og fylgst vel með jarðhræringum á Suðurlandi.

 

Hér má sjá lista yfir helstu opnunartíma á höfuðborgarsvæðinu yfir hátíðarnar:

  • Vin: Opið 26. desember milli 14:00-17:00 og hefðbundinn opnunartími milli 27.-29.desember
  • Frú Ragnheiður verður á ferðinni um hátíðarnar með vaktir 22., 23. -29., 30.desember og svo 1.janúar.
  • Konukot: Opið 24. desember frá 14:00 og allan 25.desember. Hefðbundnir opnunartímar verða á annan í jólum og milli jóla og nýárs, en 31. desember opnar klukkan 14:00 og opið verður allan 1. Janúar.
  • Úthlutun fatakorta verður næst þriðjudaginn 2. janúar
  • Opið hús fyrir flóttamenn: Ekki verður hefðbundið opið hús fimmtudaginn 28. desember, heldur end-of-year partí fyrir skjólstæðinga og sjálfboðaliða í verkefnunum opið hús, leiðsögumenn flóttamanna, og Welcome to Iceland
  • Opið hús: félagsstarf fyrir hælisleitendur: Opið hús fyrir hælisleitendur verður í Efstaleiti miðvikudaginn 27. desember og konumorgnar á fimmudeginum 28. desember í Hafnarfirði.
  • Spítalabúðir kvennadeildarinnar:   Á Landsspítala er lokað frá 23.-25. desember og 30. desember-1. janúar. Opið 26. desember frá 14:00-16:00. Á Borgarspítala er opið 23. 13:30-16:00, lokað 24-26. Desember, lokað 30. desember-1. Janúar. Annars hefðbundinn opnunartími.
  • Fatabúðir Rauða krossins á Höfuðborgarsvæðinu: verða opnar frá 10:00-22:00 á Þorláksmessu og með hefðbundna opnunartíma 27.-29. desember
  • Heilahristingur, Studd í spuna, föt sem framlag, alþjóðlegir foreldrar og önnur verkefni eru í jólafríi milli jóla og nýárs.
  • Hjálparsíminn 1717 er svo auðvitað opinn allan sólarhringinn, allan ársins hring

Skrifstofa Rauða krossins í Kópavogi verður lokuð milli jóla og nýárs og opnar 2. janúar

Skrifstofa Rauða krossins í Hafnarfirði verður lokuð milli jóla og nýárs og opnar 2. janúar

Skrifstofur Rauða krossins í Reykjavík og landsskrifstofu verða opnar 27.-29. desember og opnar 2. janúar