• Abdulhafid

Starfsmaður ICRC í Sómalíu lést

3. apríl 2018

Abdulhafid Yusuf Ibrahim, starfsmaður Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), í Mogadishu í Sómalíu lést af sárum sínum eftir sprengingu nærri skrifstofu ICRC í höfuðborginni miðvikudaginn sl.

Abdulhafid  hóf störf fyrir um fimm mánuðum hjá ICRC og var mikilvægur hlekkur í því að kynna grundvallarmarkmið alþjóðlegra mannúðarlaga - en árás eins og þessi er einmitt dæmi um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum þar sem óbreyttir borgarar tapa lífinu. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru ekki, og eiga ekki, að vera skotmörk.

 Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur, eins og tveggja ára.

Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við verkefni Rauða hálfmánans í Sómalíu síðan árið 2011, m.a. vegna þurrka og uppskerubresta auk þess að styðja við færanlega heilsugæslu og aðstoð við munaðarlaus börn. Átök í landinu hafa geisað sl. ár og ástandið oft viðkvæmt.

Rauði krossinn á Íslandi vottar fjölskyldu, samstarfsfólki og vinum Abdulhafid samúð sína.


Mynd: Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans