• IMG_0001

Styrkur til Tasiilaq

21. desember 2017

Kvennadeild Rauða krossins í Reykjavík fagnaði 50 ára afmæli í desember í fyrra og við það tilefni færði Rauði krossinn í Reykjavík deildinni 500.000 krónur í afmælisgjöf. Stjórn Kvennadeildarinnar ákvað að þessum fjármunum skildi nú varið til styrktar grænlenska Rauða krossinum þar sem þörfin væri mest, í 2000 manna bæjarfélaginu Tasiilaq á austurströnd Grænlands.

Tasiilaq deildin var stofnuð snemma á þessu ári, í kjölfar raða áfalla sem skóku bæjarfélagið. Hjálparsími var opnaður fyrir fólk sem glímdi við andlega vanlíðan og hafa stjórn og aðrir sjálfboðaliðar deildarinnar markvisst unnið að uppbyggingu, m.a. á sviði neyðarviðbúnaðar og félagsstarfs. Þá hefur deildin starfrækt svokallaða pop-up fataverslun með notuð föt í félagheimili bæjarfélagsins til að standa undir verkefnum sínum. Þessa dagana vinnur deildin að því að veita berskjölduðum og barnmörgum fjölskyldum sem eiga um sárt að binda aðstoð fyrir hátíðirnar. Fjölskyldurnar fá inneignarkort til innkaupa og gjafakort í fataverslun Rauða krossins.

Aðalfjáröflun Kvennadeildar Rauða krossins í Reykjavík er rekstur sölubúða á Landspítala, Hringbraut og Borgarspítala, Fossvogi. Auk þess aflar deildin fjár með rekstri sjálfsala. Þá er Kvennadeildin með árlegan Jólabasar. Allur ágóði er notaður til að styrkja sjúkrahúsin og verkefni Rauða krossins í Reykjavík. Hin veglega gjöf kvennadeildarinnar mun svo sannarlega koma að góðum notum í Tasiilaq.

 

IMG_0002IMG_0004Frá "pop-up" fatamarkaði deildarinnar.

22712622_10215094591105096_655592167603659647_o

Bærinn Tasiilaq á austurströnd Grænlands.