• Somaliland_Raudi-krossinn

Tæpar 200 milljónir til nauðstaddra

6. júní 2017

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið veita allt að 100 milljónum króna af eigin sjóði félagsins til aðgerða Alþjóða Rauða krossins í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen. Áður hefur verið veitt 16,6 milljónum til Jemen og 11 milljónum til Sómalíu vegna fæðuskorts og yfirvofandi hungursneyða í þessum löndum. Auk þess hafa deildir Rauða krossins á Íslandi lagt um 6,7 milljónir til verkefnisins auk tæplegra 4 milljóna króna sem safnast hafa meðal almennings.

Þá hlaut Rauði krossinn nýlega styrki frá utanríkisráðuneytinu að upphæð 45 milljóna króna vegna fæðuóöryggis í Jemen og Sómalíu sem kemur til viðbótar framlagi Rauða krossins og almennings. Rauði krossinn hlaut að auki styrk upp á 15 milljónir króna til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi á Suður-Súdan en þar í landi hafa geisað vopnuð átök sem hafa meðal annars valdið miklu fæðuóöryggi og hungursneyð á afmörkuðu svæði.

Samtals mun Rauði krossinn, utanríkisráðuneytið og íslenskur almenningur leggja tæpar 197 milljónir til neyðaraðstoðar í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen. Sú tala er afar há miðað við verkefni sem Rauði krossinn á Íslandi hefur unnið að á undanförnum árum, enda neyðin afar brýn.

Ástandið í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen er á öllum stöðum mestmegnis til komið vegna átaka, en þurrkar hafa einnig haft áhrif á fæðuskortinn. Ekki hefur enn verið lýst yfir hungursneyð í löndunum, nema á ákveðnum svæðum í Suður-Súdan, og vonir standa til að alþjóðasamfélagið geti komið í veg fyrir að hungursneyð verði lýst yfir. Rauði krossinn á Íslandi leggur sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis, en síðast var lýst yfir hungursneyð árið 2011 og þá í Sómalíu.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi er nýlega komin frá Sómalíu þar sem hún kynnti sér aðstæður á vettvangi. „Ástandið er hræðilegt og miklu verra en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Börn, þungaðar konur og gamalmenni verða verst úti í svona ástandi og það er hópurinn sem við reynum mest að hlúa að og veita stuðning. Mér fannst verst að horfa á lítil börn, nokkurra mánaða, með alvarlega vannæringu en það var líka huggum harmi gegn að horfa á starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Sómalíu bjarga lífi þessara barna með jarðhnetumauki og bólusetningum. Við erum að bjarga lífum á hverjum einasta degi og það kostar oft ekki nema þúsund krónur að koma vannærðu barni til heilbrigðis með þessu jarðhnetumauki. Sá sem leggur þannig þúsund krónur til Rauða krossins er að bjarga barni og hver Mannvinur Rauða krossins bjargar meira en tíu börnum. Og það eru einmitt Mannvinir Rauða krossins, almenningur og íslensk stjórnvöld sem hafa gert okkur kleift með okkar framlagi að bjarga þúsundum og kannski tugþúsundum barna. Það er ekki lítið og við getum verið stolt af því.“ Kristín segir jafnframt íslenskan almenning skilja svona aðstæður ágætlega því ekki er langt síðan Ísland taldist fátækt ríki, aðeins nokkrir áratugir. „Ísland fékk í raun umfangsmikla efnahagsaðstoð í kjölfar seinni heimsstyrjaldar sem gerði okkur kleift að brjótast úr fátækt og til vel stæðs samfélags. Við erum því lifandi og gott dæmi um hvernig utanaðkomandi stuðningur skiptir höfuðmáli til að verða sjálfbjarga og geta svo lagt að mörkum til annarra þjóða sem standa í þeim sporum sem við áður gerðum að hluta til.“

Þess má geta að Rauði krossinn hefur ekki tekið af neyðarsjóði sínum til erlendra verkefna síðan árið 2005 þegar aðstoð var veitt til Pakistan vegna gríðarmikils jarðskjálfta en fé hefur verið veitt úr honum vegna hamfara innanlands, meðal annars vegna snjóflóða á Flateyri og í Súðavík, jarðskjálfta og eldgosa.

Neyðarsjóðurinn er ætlaður að nýtast sem tryggingarsjóður vegna áfalla sem íslenskt samfélag og Rauði krossinn á Íslandi verða fyrir og geta þannig  brugðist við stóráföllum innan- og utanlands og að fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur ákveður. Það er þannig ekki léttvæg ákvörðun sem liggur að baki því að taka af þessum sjóð, sem aðeins er nýttur í ýtrustu neyð líkt og nú er í Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen.