Þrír sendi­full­trú­ar til Bangla­dess

22. nóvember 2017

Þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi eru komnir til Cox‘s Bazar í Bangladess til að hefja störf á tjaldsjúkrahúsi sem komið hefur verið upp fyrir flóttafólk frá Rakhine héraði í Mjanmar. Aðstæður á vettvangi eru mjög erfiðar en yfir 600.000 manns hafa flúið blóðug átök og ofsóknir í Mjanmar. Undanfarna tvo mánuði hafa átta sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfað við tjaldsjúkrahúsið, þar af þrír sem tóku þátt í uppsetningu þess. Þökk sé Mannvinum Rauða krossins, mánaðarlegum styrktaraðilum, hefur Rauði krossinn á Íslandi geta brugðist skjótt við og hefur samtals sent 12 sendifulltrúa til starfa á tjaldsjúkrahúsið.

Á tjaldsjúkrahúsinu munu hjúkrunarfræðingarnir þær Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, Margrét Rögn Hafsteinsdóttir og Dóra Vigdís Vigfúsdóttir starfa með teymi á vegum norska og finnska Rauða krossins en félögin opnuðu tjaldbúðir að beiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Á tjaldsjúkrahúsinu eru 60 sjúkrarúm og fær flóttafólkið þar heilbrigðisaðstoð auk þess sem mat er úthlutað og önnur aðstoð veitt. Margir eru örmagna og með áverka þegar þeir koma yfir landamærin til Bangladess en á tjaldsjúkrahúsinu eru 60 sjúkrarúm.

Hægt er að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi lið með því að senda sms-ið TAKK í númerið 1900 og styrkja þannig söfnunina um 1900 kr. Þá er einnig hægt að nota Kass appið með því að nota KassTag-ið takk@raudikrossinn eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.