• P-ITA0948

Tvær sýrlenskar stúlkur látnar í Miðjarðarhafi

538 flóttamönnum bjargað úr sjávarháska

19. ágúst 2016

Næstum einu ári eftir að líki  þriggja ára piltsins Aylan Kurdi skolaði á land við strendur Tyrklands minnir Miðjarðarhafið enn á sig og þá hættuför sem flóttafólk er tilbúið að leggja á sig - og leggja þar líf sitt og barna sinna að veði. 

Áhöfn björgunarskipsins Phoenix náði að bjarga 21 farþega trébáts sem hvolfdi um 40 kílómetrum undan strönd Líbíu. Fimm drukknuðu og eins er enn saknað. 
Meðal þeirra látnu eru tvö stúlkubörn, fimm ára og átta mánaða ungabarn. 

Þetta kemur fram í frétt á vef MOAS (Migrant Offshore Aid Station) sem reka björgunarskipin Phoenix og Responder ásamt ítalska Rauða krossinum og Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans. 

„Það er ekki aðeins sorglegt heldur veldur það gífurlegri gremju að verða vitni af lífsláti á hafi úti, sérstaklega þegar ung börn eiga í hlut,“ sagði Regina Catrambone, annar stofnenda MOAS. „Það er kominn tími til að alþjóðasamfélagið átti sig á raunveruleikanum og tryggi öruggar og löglegar leiðir fyrir berskjaldaðað fólk sem reyna einungis að sækja sér réttindi og öryggi, eins og það á skilið.“

Áhafnir beggja björgunarskipa stóðu í ströngu í dag og í nótt. Áhöfn Responder sýndi mikið snarræði þegar tókst að bjarga 146 manns sem voru á gúmmíbát sem var orðinn loftlaus. Um 40 manns voru þá þegar komnir í sjóinn. 

Búist er við skipinu í höfn á Trapani í Sikiley að morgni 20. ágúst með 304 flóttamenn sem hefur verið bjargað um borð. Björgunarskipið Phoenix kemur einnig til hafnar að morgni 20. ágúst í Catania en þar eru 234 flóttamenn um borð. 

Á einum sólarhring tókst því að bjarga lífi 538 flóttamanna á Miðjarðarhafi. 

Rauði krossinn á Íslandi styður við björgunaraðgerðir í Miðjarðarhafi og hefur þegar veitt 12,3 milljónum króna til aðgerðanna. Söfnunarnúmer eru einnig opin.

904 1500 fyrir 1500 króna framlag

904 2500 fyrir 2500 króna framlag

904 5500 fyrir 5500 króna framlag