• Fataflokkun2_edited-1

Umgengni í kringum fatagáma Rauða krossins

13. maí 2019

Rauði krossinn harmar slæma umgengi í kringum fatagáma Rauða krossins sem fjallað var um í frétt nýlega, en tilgangur fatagáma Rauða krossins er að gera aðgengi að fataflokkun enn betri, en ekki að valda íbúum í kringum þá óþægindum. Vitað er af þessu vandamáli og mikilvægt er að bætt verði úr þessu sem allra fyrst.

Allir gámar Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu eru tæmdir minnst einu sinni í viku svo aukalega þegar ábendingar um fulla gáma berast, en stundum er hreinlega erfitt að hafa undan öllu magninu sem berst.

Þá vill Rauði krossinn vinsamlegast benda fólki á að skilja föt ekki eftir fyrir utan eða ofan á gámunum ef þeir eru fullir, þar sem fötin geta fokið burt eða skemmst í íslenskri veðráttu. Ef gámur er fullur, er hægt að leita í næsta gám, en listi yfir fatagáma Rauða krossins um allt land má nálgast  hér. Rauði krossinn hvetur líka fólk að loka vel fatapokunum áður en þeir eru settir í gáminn.

Það er líka vandamál eitt og sér, að það kemur fyrir að heimilissorpi sé hent í og við gáma Rauða krossins. Rauði krossinn hefur átt gott samtal við Reykjavíkurborg og Sorpu en í kringum þennan tiltekna gám í Gnoðarvogi, þá kann það að hafa áhrif að nokkuð er um húsnæði í grenndinni sem er án heimilistunnu og því hafa fatagámar Rauða krossins á svæðinu verið nýttir undir heimilisrusl, sem er síður en svo gott. Það er því mikilvægt að bætt sé úr aðgengi íbúa á tilteknu svæði að ruslatunnum.

Allar ábendingar varðandi fatagáma Rauða krossins eru afal vel þegnar og mega berast okkur í síma 5704000 eða í gegnum Facebook síðu Rauða krossins.

Rauði krossinn þakkar kærlega fyrir öll föt sem berast í fatagámana og minnir á að allar verslanir  eru fullar af gersemum sem hafa borist okkur undanfarin misseri.