Umsögn um reglugerð

Birtist ekki á samráðsgátt stjórnvalda vegna tæknilegra örðugleika

8. nóvember 2018

Rauði krossinn á Íslandi birtir hér umsögn sína um drög að reglugerð um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd. Umsögnin birtist ekki í lok ágúst í samráðsgátt stjórnvalda vegna tæknilegra örðugleika.

Nú þegar reglugerðin hefur tekið gildi fagnar Rauði krossinn því að tekið hafi verið tillit til mikilvægra athugasemda um að enduraðlögunarstyrkur verði óskertur óháð á hvaða stigi slík umsókn er lögð fram auk þess sem fresturinn til að leggja fram slíka umsókn er ekki lengur innan tveggja daga frá því að umsókn er dregin til baka eða henni synjað, heldur skal hún lögð fram innan þess frests sem þess frests sem umsækjanda hefur verið veittur til sjálfviljugrar heimfarar.

Rauði krossinn vill hins vegar benda á að það skýtur óneitanlega skökku við að fólki sé boðið upp á fjárhagslegan stuðning við að koma undir sig fótum í ríkjum sem íslensk stjórnvöld hafa fram til þessa ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd til vegna afar ótryggs öryggisástands og skorts á mannréttindavernd, t.a.m. í Afganistan, Palestínu og Sómalíu.

Að öðru leyti vísast til umsagnarinnar um þau atriði sem ekki voru tekin til greina.