• 12697125_753333941464173_9005679652066306080_o

Undirbúa landsmenn fyrir hamfarir

25. febrúar 2016

 Rauði krossinn er að fara af stað með átak sitt 3 dagar en verkefnið gengur út á að fræða almenning um mikilvægi þess að vera við öllu búinn þegar kemur að hamförum á Íslandi. Fræðsla til almennings er mikilvægur þáttur í neyðarvörnum. Fundir verða á 25 stöðum.

Hjálmar Karlsson, verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum, segir að verkefnið sé styrkt af Land Rover verksmiðjunum í Bretlandi og BL á Íslandi. „Verkefnið gengur út á að efla viðnámsþrótt landsmanna við náttúruhamförum. Markmiðið er að almenningur geti verið sjálfum sér nægur í þrjá daga verði rof á innviðum, til dæmis í rafmagnsleysi, þegar ár flæða yfir bakka eða vegir fara í sundur. Það er mikilvægt að fólk sé undir það búið ef eitthvað gerist, jarðskjálfti eða aðrar hamfarir. Við viljum hvetja fólk til að vera með einhvers konar  ætlun tilbúna ef til þessa kemur. Einnig þarf að vera til viðlagakassi með völdum hlutum sem við munum kynna á næstunni,“ útskýrir Hjálmar.

 „Viðlagakassar þurfa að vera aðgengilegir á heimilinu og sömuleiðis heimilisáætlun. Gott er að kynna sér þetta verkefni, hvað þarf að vita og hvert eigi að leita komi upp neyðarástand. Á vefnum 3dagar.is er hægt að kynna sér verkefnið og hvar hægt er að leita eftir fræðslu. Við verðum með fræðslu á 25 stöðum víðs vegar um landið á næstunni,“ segir Hjálmar.

 „Fræðslufundir verða opnir fyrir alla. Mjög mikilvægt er að fólk kynni sér þetta verkefni því það getur auðveldað mjög  björgunarsveitum alla vinnu ef einhvers konar hamfarir verða á landinu.“

 Hjálmar segir að grunnskólar landsins verði heimsóttir og rætt við nemendur. „Heimili á Íslandi eru almennt ekki búin undir hamfarir. Verkefninu er ætlað að bæta úr því. Markmið Rauða krossins er að efla neyðarvarnir með fræðslu fyrir almenning. Það getur skipt afskaplega miklu máli ef fólk hefur heimilisáætlun og viðlagakassa til staðar. Við vitum aldrei hvenær verður jarðskjálfti, eldgos, flóð eða aðrar hamfarir hér á landi. Fræðslufundirnir verða síðan kynntir á hverjum stað fyrir sig.“

 

https://www.youtube.com/watch?v=AWAoD98pUSE