Hár námsgagnakostnaður ekki í anda Barnasáttmála

26. ágúst 2016

Velferðarvaktin benti nýlega á mikið ósamræmi við kostnað námsgagna. Dæmi eru um að námsgögn geti kostað á bilinu 4-22 þúsund krónur og gætir jafnvel ósamræmis innan sveitarfélaga en ekki aðeins á milli þeirra. Kostnaður þessi bitnar verst á efnaminni fjölskyldum.

Velferðarvaktin vakti jafnframt athygli á því að gjaldtaka fyrir námsgögn upp á tugi þúsunda króna samrýmist ekki anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur á Íslandi árið 2013. Rauði krossinn á Íslandi á sæti í Velferðarvaktinni sem var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. 

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á ókeypis grunnmenntun. Einnig segir í 31. grein grunnskólalaga að skyldunám skuli vera veitt að kostnaðarlausu og óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum sé gert skylt að nota í námi sínu. 

Velferðarvaktin hefur því hvatt sveitastjórnir, skólanefndir, skólaskrifstofur og skólastjóra um allt land til að leggja af kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfangakaupa eða halda þeim kostnaði í algeru lágmarki.